Reisa 390 metra langan viðlegukant í Helguvík fyrir herskip NATO
Áætlað er að reisa 390 metra langan viðlegukant í Helguvík fyrir herskip Atlantshafsbandalagsins. Einnig er gert ráð fyrir að koma þar á fót 25.000 rúmmetra eldsneytisbirgðageymslu. Frá þessu er greint á mbl.is. Þar segir að framkvæmdin sé upp á fimm milljarða króna.
Í fréttinni segir að utanríkisráðuneytið hafi sent Reykjanesbæ bréf í síðustu viku þessa efnis, þar sem óskað var eftir fulltrúa í hóp sem leiða mun þetta verkefni.
Það verði unnið í samvinnu Atlantshafsbandalagsins, utanríkisráðuneytisins, Reykjanesbæjar, Reykjaneshafnar og varnarmálasviðs Landhelgisgæslunnar. Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri varð fyrir valinu fyrir hönd Reykjanesbæjar.
Bæjarráð Reykjanesbæjar tók málið fyrir í morgun og tók vel í erindið.