Reikningar frá HS Veitum ekki sjáanlegir um mánaðamót
Viðskiptavinir HS Veitna sjá ekki reikninga sína í netbönkum um mánaðamót. Eftir að fyrirkomulagi á gerð reikninga hjá HS Veitum var breytt í byrjun árs koma reikningarnir í netbanka 6. til 8. hvers mánaðar. Eindagi reikninganna er svo 23. dag mánaðar. Fólk sem aðeins opnar netbanka sína um mánaðamót sér reikninga frá HS Veitum því ekki, í byrjun mánaðar eru reikningar ekki komnir inn í netbanka og um næstu mánaðamót á eftir eru komið yfir eindaga og reikningar farnir til frekari innheimtu.
Í svari frá HS Veitum segir að ástæða þess að reikningarnir eru gefnir út 6. til 8. hvers mánaðar sé sú að nú sé raunnotkun færð á þá í stað áætlana. „Sem reyndar hefur þann ókost að reikningar eru sendir út síðar,“ segir í svari HS Veitna. Nú eru sendir út reikningar stuttu eftir mánaðamót með innheimtu fyrir notkun síðasta mánaðar en notkun ekki áætluð síðari hluta mánaðar eins og áður var.
Ákveðið hefur verið að skipta út öllum mælum og setja inn mæla sem skila álestri beint í gegnum netið og er gert ráð fyrir að eftir fimm til sex ár verði allir mælar þeirrar gerðar. Þá verður óþarfi að lesa af á staðnum og áætlanir óþarfar og eru þegar komnir þúsundir slíkra mæla í rekstur. Þegar lesa þurfti af mælum og áætla var miðað við að lesa af síðari hluta mánaðar og áætla síðan það sem á vantaði til mánaðarmóta og senda reikninginn þá fyrir mánaðamót. Í svari HS Veitna segir að það séu úrelt vinnubrögð þegar álesturinn liggi fyrir og þá sé unnt að reikningsfæra raunnotkun hvers mánaðar í stað áætlana. Af þessi leiði hins vegar að bíða þurfi fram yfir mánaðamót eftir rauntölum og því seinki reikningagerðinni.
Þeim fyrirspurnum hefur verið beint til HS Veitna hvers vegna ekki sé notast við tímabilið 20. til 20. næsta mánaðar þannig að reikningar séu tilbúnir fyrir mánaðamót. „Því er til að svara að við gætum þetta að hluta til en ekki öllu leyti því að samkvæmt skattalögum þurfum við að telja til tekna allar tekjur vegna viðkomandi árs á því ári og það sama á í raun við varðandi sex mánaða uppgjör. Við yrðum þá, að minnsta kosti á þessum tímamótum, að áætla notkunina til mánaðamóta og draga svo væntanlega frá í næsta mánuði. Þetta hefur líka áhrif á uppgjör raforkutaps í kerfinu sem HS Veitur þurfa að kaupa. Það sem fer inn á kerfið okkar er nákvæmlega mælt af Landsneti um miðnætti lokadags en mælingu þess sem fer út af kerfinu væri þá háttað með öðrum hætti sem leiddi til mismunar,“ segir í svari HS Veitna.
Þegar fyrirkomulagi á reikningagerð var breytt var tilkynnt um þær á útgefnum reikningum og á heimasíðu og Facebook síðu fyrirtækisins. Í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Víkurfrétta er bent á að sé greitt með boðgreiðslum af einhverju tagi sé vandamálið úr sögunni. „Það er skoðun okkar að það fyrirkomulag sé einfaldara og þægilegra fyrir alla aðila þegar málið er skoðað í heild.“