Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 18. október 2001 kl. 13:55

Reiknað með verkfalli tónlistarskólakennara

Tónlistarskólakennarar hafa boðað til verkfalls nk. mánudag ef sættir við ríkissáttasemjara hafa ekki náðst. Sáttafundur er boðaður í dag og gert er ráð fyrir að samningaviðræður haldi áfram alla helgina. Óvíst er hvort röskun verði á starfi í grunnskólum Reykjanesbæjar, í kjölfar yfirvofandi verkfalls.
Haraldur Árni Haraldsson, tónlistarskólastjóri í Reykjanesbæ, er svartsýnn á stöðuna því það muni um 20% á kröfugerð kennara og þess sem í boði er. „Ég vona að lausn finnist fyrir mánudag en það má mikið gerast ef að svo á að verða. Það horfir í að 11-12 þúsund nemendur í tónlistarskólum landsins missi kennslu og að um 420 kennarar leggi niður störf“, segir Haraldur.
Að sögn Haraldar er enn óvíst hvaða áhrif verkfallið muni hafa á starf í grunnskólum en fyrirkomulag þar er þannig að 8-13 ára börn fá að fara út úr kennslustundum til að læra á hljóðfæri og í 1. og 2. bekk fá börnin svokallaða forskólakennslu. Þá er hálfur bekkur tekinn út úr kennslustofunni í einu en hinir sitja áfram yfir bókunum.
„Lögfræðingur Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur skilað inn áliti og að hans mati eiga nemendur að fá óskerta kennslu í grunnskólum. Þeir fara þá ekki úr tímum, eins og venja er, heldur sitja áfram og læra með hinum krökkunum. Úrskurður kennarasambandsins er ekki kominn ennþá, en ég hef hlerað að sambandið sé ekki á sömu skoðun og lögfræðingur SÍS. Málið er nú í höndum verkfallsstjórnar og lögfræðingsins, en þeir verða að komast að samkomulagi áður en verkfall hefst nú á mánudag“, segir Haraldur.
Þú ert þá alveg sannfærður um að verkfallið muni hefjast eftir helgi?
„Við reiknum með verkfalli og undirbúum okkur samkvæmt því.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024