Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Refir verði friðaðir á Miðnesheiði í baráttu við sílamáv
Fimmtudagur 15. september 2005 kl. 18:26

Refir verði friðaðir á Miðnesheiði í baráttu við sílamáv

Róttækar aðgerðir þarf til að fækka sílamávi á Miðnesheiði. Mávinum fjölgar gríðarlega ört og á síðasta ári verptu 36.600 pör á Miðnesheiði einni. Á Miðnesheiði er alþjóðaflugvöllur og honum stafar hætta af ört vaxandi sílamávabyggð en varpið í heiðinni er nú þegar orðið það stærsta í heimi. Árlega er mikill fjöldi fugla skotinn, bæði til að fækka í varpinu og einnig til að hrekja hann frá flugbrautum. Í dag var síðan boðað til fundar hjá Náttúrustofu Reykjaness til að kanna hljómgrunn fyrir því að friða tófu á Miðnesheiði og í næsta nágrenni. Það er þekkt að tófan getur gert mikinn usla í varpinu hjá sílamávi og hrakið hann á brott.

Til fundarins hjá Náttúrustofu Reykjaness var boðið þingmönnum, sveitarstjórnarmönnum og hagsmunaaðilum, s.s. frá Keflavíkurflugvelli og æðarbændum. Það kom fram á fundinum í erindi Páls Hersteinssonar prófesdsors að árið 1958 varð fyrst vart við sílamáv á Miðnesheiði þegar 10 pör voru þar í varpi. Frá þeim tíma hefur sílamávi fjölgað hratt. Árið 1974 voru pörin 1000-1500 og á árunum 1990-92 voru pörin orðin 24.300. Enn hefur sílamávurinn fjölgað sér en fyrir fimm árum reyndust pörin vera orðin 29.500 og í fyrra voru pörin 36.600. Á sama tíma og sílamávi fjölgar þá minnkar varpsvæðið þeirra. Það var árið 1990 um 29 ferkílómetrar en var í fyrra komið niður í 17 ferkílómetra. Stóru mávavarpi við fjölfarinn alþjóðaflugvöll fylgir stórkostleg hætta á árekstrum milli máva og flugvéla. Það kom fram að Varnarliðið er að tilkynna allt að 40 slíka árekstra á ári en flugfélög í borgaralegu flugi tilkynna mun færri slík atvik. Þó eru þekkt tvö afgerandi tjón. Annað frá árinu 1974 þegar eldur kom upp í hreyfli DC-8 þotu og hitt árið 1999 þegar sílamávur fór í hreyfil þotu Air Atlanta og skemmdi hann. Síðustu þrjá áratugina hafa árekstrar fugla og loftfara valdið dauða tæplega 200 manns í heiminum og tjón af slíkum árekstrum er mikið ár hvert.

Fyrstu árin var varpið allt í kringum Keflavíkurflugvöll en nú er svo komið að það er nær eingöngu norðan og vestan við flugvöllinn. Ástæðuna rekja menn m.a. til þess að markvisst hefur verið unnið að því að hrekja mávinn frá flugbrautum. Um tíma voru 200 pör búin að koma sér upp hreiðrum milli flugbrauta en nú eru þar engir mávar.
Talið er að refir nýtist vel í baráttunni við sílamávinn en varp hefur flutt sig frá svæðum þar sem greni hafa fundist. Nú hefur meðal annars verið útbúið gervigreni í þeirri von að tófan komi sér þar fyrir bústað. Á þeim fimm árum sem liðin eru síðan grenið var útbúið hefur það verið notað tvívegis.

Það kom fram á fundinum í dag að refaveiðar á Suðurnesjum hafa hindrað að tófan næði almennilegri fótfestu á Miðnesheiði. Vitað er að að minnsta kosti þrjú pör gutu um vorið 2004. Þar er hins vegar vilji þeirra sem boðuðu til fundarins í dag að umhverfisráðherra beiti sér fyrir nauðsynlegum stjórnvaldsaðgerðum til að friða tófuna á Miðnesheiði og í næsta nágrenni tímabundið í fimm ár frá 1. janúar 2006 til 31. desember 2010. Tilgangurinn er sá að rannsaka hvort fjölfun tófu á svæðinu verði til þess að fækka sílamávum í varpi á svæðinu í þeim mæli að flugumferð um Keflavíkurflugvöll stafi ekki hætta af. Þrátt fyrir friðunina verið hægt að grípa inn í með takmörkuðum veiðum ef vart verður við dýrbít á svæðinu.

Margt bendir til þess að tófur hafi haft veruleg áhrif á varp sílamáva á Miðnesheiði. Þegar varpið hófst og meðan fjölgun var örust voru engar tófur á svæðinu en eftir að þær fóru að berast þangað hefur hægt á fjölgun máva. Svo virðist líka að varpútbreiðslan hafi breyst og hefur varpið greinilega hopað á þeim svæðium sem vitað er um greni í ábúð. Aftur á móti hefur varpþéttleiki aukist að sama skapi á svæðum fjarri grenjum.

Refaveiðar hafa haldið mjög aftur af fjölgun tófu á svæðinu og því er nauðsynlegt að friða tófuna tímabundið í því skyni að athuga hvort það getur orðið til þess að fækka sílamávum í varpi í þeim mæli að flugumferð um Keflavíkurflugvöll stafi ekki lengur hætta af.

Sveinn Kári Valdimarsson, forstöðumaður Náttúrustofu Reykjaness lagði erindi um friðun tófunnar í hendur sveitarstjórnarmanna og hagsmunaaðila en fyrir 15. október verður púlsinn tekinn á sömu aðilum og í framhaldinu sent erindi til umhverfisráðuneytisins um friðunina.

Páll Þórðarson æðarbóndi í Sandgerði hefur mikilla hagsmuna að gæta í ört stækkandi æðarvarpi sínu. Hann sagðist í samtali við Víkurfréttir vera sáttur við friðun tófunnar. Hjá honum héldu girðingar tófunni utan við varpið á meðan 70.000 sílamávar gerðu á það reglulegar árásir úr lofti. Af tveimur óvinum æðarfuglsins, þá kysi hann frekar að friða tófuna og láta hana vinna á hinum óvininum, sem sílamávurinn er.

Myndir: Frá fundinum í Sandgerði nú síðdegis. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024