Réðust inn í íbúð þroskaheftra einstaklinga
Hópur unglinga réðst inn í íbúð þroskaheftra einstaklinga í íbúð í Keflavík aðfararnótt laugardagsins og var lögregla kvödd á staðinn til að rýma íbúðina. Unglingarnir komu inn óboðnir og ollu töluverðum skemmdum og brutu m.a. gifsveggi og eyðilögðu húsmuni. Að sögn Jóhannesar Jenssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns lögreglunnar í Keflavík hefur brotið verið kært til lögreglunnar. „Þetta er húsbrot þar sem fólk kom inn óboðið. Lögreglan er svo sem ekki ókunnug þessu því það er algengt að samkvæmi fara úr böndunum þegar óboðnir gestir koma í slík samkvæmi,“ segir Jóhannes en lögreglan vinnur að rannsókn málsins.