Rannsóknaboranir í Eldvörpum hefjast í janúar
Borplön rannsóknarborana verða staðsett innan svæðis á náttúruminjaskrá og sömuleiðis á svæði sem nýtur hverfisverndar á aðalskipulagi Grindavíkur 2010-2030 en í skilmálum hverfisverndar er gert ráð fyrir að leyfa vinnsluholur háhita. Öll undirbúningsvinna rannsóknaborana hefur miðað að því að uppfylla skilmála hverfisverndar sem eru eftirfarandi:
- Halda skal mannvirkjum í lágmarki og fella þau að landi eins og kostur er.
- Nota skal núverandi vegslóða og staðsetja borholur meðfram þeim. Ef lagning nýrra slóða reynist nauðsynleg skal umfangi þeirra haldið í lágmarki.
- Við allar framkvæmdir innan hverfisverndar-svæðisins skal hafa það að leiðarljósi að forðast rask á hraunum eins og mögulegt er, vanda frágang og ganga vel um svæðið.
- Óheimilt er með öllu að hrófla við gígunum sjálfum.
Grindavíkurbær og HS Orka hf. leggja ríka áherslu á að hönnun og frágangur borplana verði með þeim hætti að sem minnst beri á þeim í umhverfinu og að framkvæmdin valdi sem minnstu raski. HS Orka hf. mun fara eftir verklagsreglum um hönnun, frágang og fráveitu borteiga sem stefna að þessu markmiði. Dæmi um þær aðgerðir sem verður ráðist í til þess að ná sem bestum árangri í að lágmarka áhrif eru:
- Svarðlagi, s.s. mosa, verður flett af og geymt til frágangs á röskuðum svæðum.
- Útlínur borplana verða hannaðar þannig að þær taki mið af línum í nærumhverfinu.
- Borplan mun liggja í sömu hæð og náttúruleg hæðarlína á framkvæmdasvæði.
- Efni í malarpúða verður í sama lit og áferð og efni í nánasta umhverfi.
- Landslagsmótun verður beitt til að móta yfirborð, fláa og stærð borplans að borun lokinni.
- Frætegundir sem notaðar eru verða í samræmi við tegundir á framkvæmdasvæði.
- Jarðhitavökva verður fargað um svelgholur í jaðri borplans og engin ummerki munu sjást um útfellingar á yfirborði.
Heimild er til að hafa stærð hvers borplans um 5.700 m2 samkvæmt deiliskipulagi en áætluð stærð er 4.200 m2 og verður lögð áhersla á að hafa borplönin eins lítil og mögulegt er án þess að það ógni öryggi eða hagsmunum framkvæmdarinnar. Borplan EG-2 þar sem núverandi hola er staðsett verður stækkað um 2.000 m2 og vegna nálægðar við Eldvarpagígana og sérstakra hraunmyndana hefur staðsetning þeirrar stækkunar verið vönduð þannig að hún valdi sem minnstum áhrifum (sjá efri mynd.
Rannsóknaboranirnar koma ekki til með hafa áhrif á gígaröð Eldvarpa og göngustígar og slóðar verða áfram opnar þeim ferðamönnum sem vilja sækja svæðið heim. Áhrif af hávaða frá framkvæmdum og vegna blásturs borholna kunna að valda áhrifum á upplifun ferðamanna og útivistarfólks sem eiga leið um svæðið en þau áhrif eru tímabundin.
Áætlað er að rannsóknarboranir hefjist um mitt ár 2016.
Greinin birtist fyrst í Járngerði, fréttabréfi Grindavíkurbæjar.
svartri línu. Nærliggjandi gígar eru afmarkaðir með rauðum lit en á myndinni má einnig sjá helli sem telst til fornleifa og fundarstað sjaldgæfra háplöntutegunda. Afmörkun borplansins tekur mið af nærumhverfinu.