Rannsókn á tildögum banaslyss stendur enn yfir
- Slæm veðurskilyrði þegar slysið átti sér stað
Rannsókn á tildrögum banaslyss við Njarðarbraut í Reykjanesbæ í gær stendur yfir, samkvæmt tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum.
Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning í gær klukkan 16:55 um að árekstur hefði orðið á Njarðarbraut við gatnamót Tjarnarbrautar. Þar varð harður árekstur tveggja bifreiða. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar lést.
Veðurskilyrði voru slæm þegar slysið varð, myrkur, rigning og talsverður vindur. Allt tiltækt lið lögreglu og slökkviliðs- og sjúkraflutninga kom á staðinn ásamt lækni en vegfarendur reyndu endurlífgun þar til björgunaraðilar komu og tóku við.
Vinna á vettvangi tók þrjá klukkutíma og var gatan lokuð á meðan. Fulltrúi frá rannsóknarnefnd samgönguslysa kom á staðinn.
Ekki er unnt að greina frá nafni hins látna ökumanns þar sem enn er unnið að því að tilkynna nánustu ættingjum um banaslysið.