Rannsókn á barnsláti eftir fæðingu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Aðstoðarlandlæknir stýrir athugun embættistins á fæðingu og láti barns við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja nýverið. Þessa dagana er lögmaður að kanna hvort embætti landlæknis sé vanhæft til að stýra rannsókn þessa máls þar sem Sigríður Snæbjörnsdóttir framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er eiginkona Sigurðar Guðmundssonar landlæknis.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Sigríður að hún teldi að tengsl sín við landlækni hefði engin áhrif á rannsókn málsins, enda væri búið að fela aðstoðarlandlækni rannsókn þess. „Það eru hinsvegar skiptar skoðanir um það meðal lögfræðinga um hvort landlæknisembættið sé vanhæft í þessu máli vegna stöðu minnar við HSS. Læknisfræðilega séð er ég ekki yfirmaður stofnunarinnar, en ég er stjórnunarlegur yfirmaður stofnunarinnar í heild sinni,“ sagði Sigríður. Aðspurð sagði Sigríður að hún kæmi ekki að rannsókn á andláti barnsins. „Það eina sem ég hef komið nálægt þessu máli var að safna saman gögnum um málið og senda það landlæknisembættinu.“
Í Morgunblaðinu í gær segir að samkvæmt niðurstöðu krufningar á barninu sem lést nýlega á Landspítalanum eftir fæðingu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sé talið að barnið hafi látist af völdum súrefnisskorts, en þetta er haft eftir ömmu barnsins. Barnið fæddist rúmlega tólf á miðnætti og var það tekið með bráðakeisaraskurði. Tveir barnalæknar komu til Keflavíkur til að flytja barnið á vökudeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss að sögn ömmunnar, en komið var með barnið, sem var 14 marka stúlka, um fjögurleitið um nóttina og var það sett í öndunarvél. Móðir barnsins kom á Landspítalann um hádegið daginn eftir. Einum og hálfum sólarhring eftir að komið var með stúlkuna á vökudeildina lést hún.
Í samtali við Morgunblaðið í gær segir amman að um hálftólfleytið kvöldið fyrir fæðingu hafi ljósmóðir sagt henni, aðspurð, að fæðingin gengi eftir áætlun en móðirin hafði mikla verki. Móðirin fékk deyfingu skömmu síðar og segir amman að 32 mínútur hafi liðið frá því að hjartsláttur barnsins féll og þar til það fæddist. Amman telur að spurning sé að hennar mati hvort sá tími sé eðlilegur eða ekki og að einblínt sé um of á deyfinguna og vafamál hvort hún sé orsök eða afleiðing þess að barnið hafi látist.
Að sögn Konráðs Lúðvíkssonar yfirlæknis Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hafa deyfingar í legháls verið lagðar af á stofnuninni þar til annað kemur í ljós.