Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Randi hætt kennslu eftir 43 ára starf í Holtaskóla
Föstudagur 10. júní 2005 kl. 15:41

Randi hætt kennslu eftir 43 ára starf í Holtaskóla

Randi Træen hóf störf árið 1962 í Gagnfræðaskólanum í Keflavík, síðar Holtaskóla. Hún hefur því unnið allan sinn starfsaldur þar. Randi var í upphafi eini kvenkennarinn við skólann og hefur því orðið vitni að þeirri þróun sem orðin er í dag að kennsla er að meirihluta skipuð konum. Hún á stóran þátt í uppbyggingu skólans og sér þess víða merki.

Randi hefur kennt nær öllum Keflvíkingum frá þeim sem nú eru til þeirra sem eru farin að nálgast sextugsaldurinn eða um þremur kynslóðum. Hægt er að fullyrða að hún er mikill áhrifavaldur í lífi margra.

Auk kennslunnar hefur Randi staðið fyrir fjölda námskeiða í sínu fagi og er frumkvöðull í endurvinnslu pappírs og glers. Þá var Randi einn af stofnendum Baðstofunnar í Keflavík sem er félag listmálara.

Þar sem Randi hefur fylgt skólanum í ein 43 ár hefur hún séð hann vaxa og dafna. Hún hefur haldið utan um þessa sögu og verið ötul við að taka myndir við hin ýmsu tækifæri og halda þeim til haga.

Nú ætlar hún að setjast í helgan stein og fara að sinna öðru en kennslu. „Ég ætla að taka því rólega og passa mig að skipuleggja ekki neitt. Ég ætla sko ekki að lifa eftir stundaskrá framar,“ sagði Randi og bætti við að fyrsta verk hennar sumarfríinu væri að fara að sinna skóræktinni sinni. Svo myndi hún fara til Noregs í sumar en þar á hún sumarhús. Þó erfitt sé að yfirgefa skólann, nemendur og samstarfsfólk er hún sátt við sitt og hlakkar til framtíðarinnar.

VF-mynd Margrét

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024