Ragnheiður Elín styrkti Bryn ballett um hálfa milljón
Listi yfir skúffufé ráðherra
Skúffufé ráðherra hefur talsvert verið í umræðunni að undanförnu eftir að í ljós kom að kvikmyndaverkefni sem fyrrum stjórnmálamenn komu að fengu óvenju háa styrki.
Þetta svokallaða skúffufé er fé sem ráðherrar hafa til umráða vegna ýmissa verkefna. Í frétt á Vísi er ítarleg samantekt á því hvernig ráðherrar ráðstafa þessu fé. Ragnheiður Elín Árnadóttir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hefur nýtt fjármagnið meðal annars til að styrkja Bryn ballett á Ásbrú um hálfa milljón króna árið 2013 án þess að um sérstakt verkefni væri að ræða hjá ballettinum. Ragnheiður Elín sem er fyrsti þingmaður Suðurkjördæmisins og búsett í Reykjanesbæ veitti einnig styrk til Bioeffect, sem er líftæknifyrirtæki í Grindavík, um hálfa milljón króna vegna komu kínverskra sjónvarpsmanna til fyrirtækisins.
Ragnheiður veitti óperu Gunnars Þórðarssonar, sem ber heitið Ragnheiður, hálfa milljón sömuleiðis. Einnig styrkti Ragnheiður Elín karlakórasarf í Keflavík um 200 þúsund krónur vegna Kötlumóts sem haldið var hér í vetur. Sjá má styrki frá ráðherranum í töflum hér að neðan.