Fréttir

Ragnheiður Elín ráðherra furðar sig á niðurstöðum Rögnunefndar
Föstudagur 26. júní 2015 kl. 07:32

Ragnheiður Elín ráðherra furðar sig á niðurstöðum Rögnunefndar

„Eigum við 22-25 milljarða aflögu (varlega áætlað) til að byggja nýjan flugvöll í korters fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli? Nei, nú held ég að menn ættu að snúa sér aftur að verkefninu. Það snerist um það hvort innanlandsflugið ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni. Þetta er ekki lausnin á því,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir viðskipta- og iðnaðarráðherra á Facebook síðu sinni í gær vegna skýrslu Rögnunefndarinnar um Reykjavíkurflugvöll, sem kynnt var í gær. Mikil viðbrögð urðu við skýrslunni og hafa margir furðað sig á niðurstöðum hennar. Spjall þræðir samskiptamiðlanna voru sjóðheitir í kjölfar frétta af niðurstöðum skýrslunnar.

Ragnheiður segist í pistli sínum ekki vita hvar hún eigi að byrja. Hún spyr: Er Hvassahraun í Reykjavík? Var hlutverk nefndarinnar að finna stað fyrir nýjan alþjóðavöll? Hafa nágrannar Keflavíkurflugvallar verið að berjast fyrir því að hann yrði fluttur? Er skortur á landrými við Keflavíkurflugvöll? Hefur umræðan um fleiri gáttir millilandaflugs til að dreifa ferðamönnum um landið snúist um að fjölga gáttum á Stór-Keflavíkursvæðinu?

Flestir sem hafa tjáð sig á samskiptamiðlum furða sig á niðurstöðum skýrslunnar, m.a. á því hvers vegna hún hafi ekki verið látin kanna hagkvæmni þess að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024