Ragnarsseli lokað um áramót – 12 starfsmönnum sagt upp
Ragnarsseli verður lokað um næstu áramót verði óvissu um framtíðarrekstur þess ekki eytt fyrir þann tíma. Tólf starfsmönnum Ragnarssels var sagt upp núna um mánaðamótin. Sextán einstaklingar njóta dagvistar á Ragnarsseli á vegum Þroskahjálpar á Suðurnesjum. Þjónustan við þá er í mikilli óvissu og brýnt að henni verði eytt sem fyrst, segir formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum.
„Við vitum ekki hvort og hvernig bæjarfélögin ætla að sjá um þennan málaflokk eftir að hann færist yfir til þeirra um næstu áramót. Við höfum verið með þjónustusamning við ríkið, fengið styrk frá SSS og svo hefur Þroskahjálp á Suðurnesjum greitt þann mismun sem upp á vantar í reksturinn. Núna er staðan orðin þannig að Þroskahjálp á ekki fé til að greiða þennan mismun, við erum ekki með samning við ríkið eftir áramót og vitum ekki hvað bæjarfélögin vilja eða ætla að gera. Þetta er allt í óvissu og því þurftum við að grípa til þessara ráðstafana,“ sagði Sigurður Ingi Kristófersson, formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum, í samtali við VF.
Á Ragnarsseli eru að staðaldri sextán börn upp að 16 ára aldri. Fleiri börn njóta þjónustunnar yfir sumartímann þegar bæjarfélögin hafa lagt til viðbótarstarfsmenn. Tólf starfsmenn Ragnarssels fengu uppsagnarbréf nú um mánaðamótin og segir Sigurður brýnt að fá þessi mál á hreint sem fyrst til að eyða óvissunni. Hún sé afar óþægileg fyrir alla, skjólstæðinga, foreldra þeirra og starfsmenn.
Aðspurður segir Sigurður þetta ekki þýða endalok Ragnarssels. „Mér heyrist að menn vilji leysa þetta sem fyrst þannig að þetta er ekki vonlaust mál. Við höldum áfram að vinna í því.“