Rafskaut brotnaði í ofni United Silicon
- ofninn stöðvaðist og brunalykt lagðist yfir Reykjanesbæ
Endurræsing á kísilveri United Silicon gengur ekki áfallalaust. Ljósbogaofn verksmiðjunnar stöðvaðist á þriðjudagskvöld vegna þess að eitt af rafskautum ofnsins brotnaði, en búast má við slíku við uppkeyrslu. Það mun taka tíma að ná jöfnum og stöðugum rekstri eftir svo langa rekstrarstöðvun en endurræsing verksmiðjunnar hófst síðdegis sl. sunnudag eftir langt rekstrarstopp.
„Viðgerð tók nokkurn tíma og af þeim sökum barst lykt frá verksmiðjunni á meðan á ofnstoppi stóð. Ofninn var gangsettur að nýju í gærkvöldi, 24. maí kl 20.29,“ segir í tilkynningu frá United Silicon. Sterka lykt frá verksmiðjunni lagði yfir Reykjanesbæ síðdegis í gær og gærkvöldi vegna þessa.
Þá segir í tilkynningunni: „Um leið og ofninn nær fullum hita að nýju, á að draga úr lykt frá verksmiðjunni. Umhverfisstofnun og bæjaryfirvöldum er haldið upplýstum um allt sem gerist í rekstri ljósbogaofnsins á meðan á þessari uppkeyrslu stendur“.