Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Rafrettu-reykingar grunnskólanema algengastar á Suðurnesjum
Á síðasta ári hafa rafrettureykingar meðal nemenda í FS aukist.
Föstudagur 25. nóvember 2016 kl. 06:00

Rafrettu-reykingar grunnskólanema algengastar á Suðurnesjum

Tæp 11% nemenda í 8. til 10. bekk á Suðurnesjum hafa reykt rafrettur oftar en 10 sinnum

Á Suðurnesjum hafa 10,5 prósent ungmenna í 8. til 10. bekk reykt rafrettur tíu sinnum eða oftar um ævina og er það hæsta hlutfallið á landsvísu. Þessar upplýsingar koma fram í í rannsókn á líðan og heilsu ungs fólks á Íslandi sem unnin var af Rannsóknum og greiningu. Hlutfallið á landsvísu er 5,9 prósent. Minnst er notkun rafretta meðal ungmenna á höfuðborgarsvæðinu eða 4,1 prósent.

Að sögn Guðlaugar Pálsdóttur, aðstoðarskólameistara Fjölbrautaskóla Suðurnesja, varð þess vart á síðasta skólaári að nemendur væru byrjaðir að reykja rafrettur og það jafnvel inni í skólanum. Mjög lítill hluti nemenda við FS reykir hefðbundnar sígarettur enda hefur góður árangur náðst við að minnka reykingar á Íslandi. Guðlaug segir rafretturnar hentugar fyrir fólk sem er að reyna að hætta hefðbundnum reykingum en ekki aðra. „Í dag er það orðið þannig að það þykir flott hjá sumum nemendum að nota rafrettur. Við erum búin að tala við marga nemendur í skólanum varðandi notkun á rafrettum og flestir tala um að þetta sé fíkn. Það er nefnilega hægt að kaupa fyllingu í þær með miklu nikótíni,“ segir hún.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Niðurstöður rannsóknarinnar um líðan og heilsu ungmenna á Íslandi voru kynntar á hádegisfundi í Háskólanum í Reykjavík á dögunum. Á kynningunni kom fram í máli Margrétar Lilju Guðmundsdóttur, aðjúnkts við HR, að lítið væri í raun vitað um rafrettur enda væru þær tiltölulega nýjar á markaðnum. Mælt hafi verið með þeim fyrir þá sem vilji hætta að reykja en þegar nánar sé að gáð þá hafi 44 prósent þeirra sem nota rafrettur í grunnskóla ekki reykt tóbak áður.

Margrét sagði afar áhættusamt þegar ungmenni reyki rafrettur. Þó að sagt sé að í þeim sé ekkert níkótín þá geti það þýtt ýmislegt fleira því að þær geti jafnvel innihaldið níkótín. Kannanir sýni fram á að þau ungmenni sem hafi ekki reykt áður en noti rafrettur ánetjist sígarettum eða níkótíni síðar um ævina. Þetta viti tóbaksfyrirtækin sem horfi á rafrettur sem markaðstæki til að fá til sín nýja viðskiptavini þar sem átak gegn sígarettu- og tóbaksframleiðendum hafi dregið úr tekjum þeirra. Þessu til staðfestingar benti Margrét á að tóbaksframleiðendur eigi stóra eignahluti í rafrettufyrirtækjum eða að minnsta kosti 30 prósent þeirra.