Rafn Markús ráðinn skólastjóri Heiðarskóla
Rafn Markús Vilbergsson hefur verið ráðinn skólastjóri Heiðarskóla. Rafn Markús lauk námi til B.Sc. gráðu í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008 og M.Ed. gráðu í stjórnunarfræði menntastofnana frá Háskóla Íslands árið 2014.
Rafn Markús hefur starfað í Njarðvíkurskóla frá árinu 2009 við góðan orðstír og verið í stjórnunarteymi skólans undanfarin fimm ár, bæði sem verkefnastjóri og deildarstjóri.
Þrír umsækjendur voru um starfið en auk Rafns sóttu þau Ásdís Hrönn Viðarsdóttir og Þormóður Logi Björnsson um skólastjórastarfið í Heiðarskóla.
Rafn hefur auk skólastarfa sinna verið þjálfari 1. deildarliðs Njarðvíkur í knattspyrnu.