Rafmagnsleysi lamaði atvinnulíf
Ljóst er að rafmagnsleysið sem varð í næstum tvo tíma frá því um kl. 13 og til að verða 15 í dag lamaði atvinnulíf á Suðurnesjum með tilheyrandi fjárhagstjóni.
Landsnet leggur áherslu á að komið verði upp annarri línu til Suðurnesja til að auka raforkuöryggi á svæðinu. Framkvæmdin hefur hins vegar verið stopp í langan tíma vegna deilna.
Vefur Víkurfrétta, vf.is, datt úr sambandi við umheiminn um leið og rafmagnið fór af, sem er bagalegt. Vefþjónninn á að hafa raforku í 30-60 mínútur eftir að rafmagn fer af en einhverra hluta vegna þá lamaðist vefsíðan um leið og rafmagnið fór. Beðist er velvirðingar á því enda víst að margir hafi reynt að komast inn á vefinn til að fá upplýsingar um rafmagnsleysið.