Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Rafmagnslaust í Grindavík í tæpa fimm tíma
Þriðjudagur 20. febrúar 2018 kl. 11:00

Rafmagnslaust í Grindavík í tæpa fimm tíma

- Íbúar ósáttir með ástandið

Um klukkan þrjú í nótt varð truflun í flutningskerfinu á Reykjanesi sem varð þess valdandi að rafmagnslaust varð í Grindavík í nokkra klukkutíma. Ástæða bilunarinnar var bilaður eldingarvari á Fitjalínu 1 sem liggur á milli Fitja og Rauðamels. Viðgerð í Fitjum hófst strax í nótt og var henni lokið rétt fyrir klukkan átta í morgun.

Íbúar Grindavíkur eru ósáttir með stöðuna eins og hún er í dag en töluvert hefur verið um það á undanförnum mánuðum að rafmagni hefur slegið út í sveitarfélaginu. Einn íbúi talar um að þetta sé orðið eins og í gamla daga og þegar hús eru hituð með rafmagnskyndingu þá verði ansi kalt í þeim eftir nokkrar klukkustundir án rafmagns.
Grunnskólinn sendi meðal annars frá sér tilkynningu og bað foreldra að halda börnum heima þar til að rafmagn kæmi á en kom á stuttu fyrir skólabyrjun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Undanfarin ár hefur Landsnet verið að vinna að lagningu Suðurnesjalínu 2, í þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum. Eins og staðan er í dag er einungis um að ræða eina línu frá Hafnarfirði til Suðurnesja og því ekki hægt að tryggja afhendingaröryggi á svæðinu þegar um truflun eða bilun eins og í nótt er um að ræða.

Drög að matsáætlun vegna Suðurnesjalínu 2 eru búin að vera í kynningu og athugasemdafresti er nú nýlokið. Nú er verið að vinna úr ábendingum sem bárust. Vinna að undirbúningi Suðurnesjalínu 2 er unnin í samráði og samvinnu við samfélagið.