Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Raflínur fara ekki í jörð
Miðvikudagur 28. nóvember 2012 kl. 21:30

Raflínur fara ekki í jörð

Meirihluti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga  samþykkti nú áðan að falla frá fyrri ákvörðun bæjarstjórnar um að raflínur skuli fara í jörð. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að fyrra samkomulag við Landsnet verði aftur virt.

Bæjarstjórn fellur því frá ákvörðun sinni um að endurskoða aðalskipulag sveitarfélagsins og mun gildandi aðalskipulagi því ekki verða breytt. Jafnframt samþykkti bæjarstjórn samning við Landsnet um afnot af landi sveitarfélagsins undir tvær háspennulínur í lofti.

Í tilefni af þessari ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar bókaði Inga Sigrún Atladóttir, forseti bæjarstjórnar, sem stóð gegn breytingunni eftirfarandi:

„Málið sem hér er til umfjöllunar hefur mætt mjög mikið á kjörnum fulltrúum í Sveitarfélaginu undanfarin sex ár sem baráttan gegn raflínum í Sveitarfélaginu Vogum hefur staðið yfir. Álagið hefur fyrst og fremst verið vegna eindregins stuðnings samtaka atvinnurekanda á Suðurnesjum, sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum og flestra þingmanna kjördæmisins við að álver í Helguvík. Nú er stefnubreyting Sveitarfélagsins í málinu orðin að veruleika og eiga væntanlega margir eftir að fagna því. 


Á þessari stundu er mér efst í huga þakklæti til þeirra allra félaga minna í sveitarstjórn í Sveitarfélaginu Vogum sem staðið hafa af sér þessa miklu ágjöf, allt til þessa. Stefnufesta í svona erfiðu og umdeildu máli er ekki sjálfsögð. Einnig hugsa ég með þakklæti til þeirra íbúa sem hafa staðið með bæjarstjórninni sinni þrátt fyrir alvarlegar ásakanir um að íbúar sveitarfélagsins beri einir ábyrgð á töfum á uppbygginu í Helguvík. 


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég trúi því að með því að spyrja spurninga um fyrirætlanir orkuflutnings og orkusölufyrirtækja höfum við þokað umræðunni áfram og átt okkar þátt í vitundarvakningu í samfélaginu um að ekki sé sjálfsagt að raforkuflutningsfyrirtæki á Íslandi fái alltaf sínum ýtrustu kröfum framgengt. Baráttufólki um allt land svo og Landeigendum í Vogum óska ég alls hins besta í baráttunni á komandi misserum“.