Rætt við Landsvirkjun um orkukaup fyrir kísilver í Helguvík
Íslenska kísilfélagið á í samningaviðræðum við Landsvirkjun um kaup á orku til fyrirhugaðrar kísilverksmiðju við Helguvík, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Áætlað er að gangsetja fyrri ofn verksmiðjunnar 1. ágúst 2012 en til þess að það verði mögulegt þarf að ganga frá orkusamningum á næstu tveimur mánuðum, samkvæmt upplýsingum stjórnarformanns félagsins.
Danska þróunarfyrirtækið Tomahawk Development hefur staðið fyrir undirbúningi verksmiðjunnar. Fyrir liggur að bandarískt fyrirtæki sem starfar á þessu sviði er tilbúið að byggja verksmiðjuna og reka.
Kísilverksmiðjan hefur farið í gegn um umhverfismat og fengið starfsleyfi. Reykjanesbær hefur útvegað lóð við Helguvík og gert byggingarhæfa. Þá er búið að fjármagna byggingu verksmiðjunnar, að sögn stjórnarformanns Íslenska kísilfélagsins, Friðbjörns E. Garðarssonar lögmanns í Morgunblaðinu.