Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ræktunarstöð fyrir skeldýralirfur á Reykjanesi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 7. janúar 2023 kl. 06:32

Ræktunarstöð fyrir skeldýralirfur á Reykjanesi

„Bláskeljaræktun er framtíðin,“ segir Júlíus B. Kristinsson.

Á fundi bæjarráðs Grindavíkur 6. desember var aðeins fjallað um hugmyndir og fyrirætlanir Júlíusar B. Kristinssonar sem á fyrirtækið Silfurgen, varðandi ræktunarstöð fyrir skeldýralirfur. Eflaust reka margir upp stór augu; „skeldýralirfur“? Um hvað snýst málið?

Júlíus sem er einn stofnenda ORF Líftækni, vann hjá fyrirtækinu þar til í mars á þessu ári, er doktor í lífeðlisfræði laxa og menntaður í viðskipta- og rekstrarfræðum. Hann menntaði sig á sínum tíma til að fara út í laxeldi, vann í greininni í nokkurn tíma og var í fyrstu laxeldisbylgjunni. Átti m.a.frumkvæði að því að Stofnfiskur hf. (nú Benchmark Genetics) var sett á laggirnar.

„Í grunninn snýst þetta verkefni um að rækta lirfur fyrir bláskel (samheiti kræklingur) en fullvaxin bláskel er afurðin sem endar á matardisknum. Bláskel þrífst í fjörum Íslands og við náttúrulegar aðstæður sest lirfan á steina í sjónum, vex þar og verður fullvaxin bláskel með bragðgóðum próteinríkum bita inn í. Við náttúrulegar aðstæður tekur á bilinu tvö til fjögur ár fyrir lirfur að verða að 20 gramma bláskel/kræklingi en með því að rækta bláskelina við bestu aðstæður, tel ég hægt að flýta ferlinu þannig að kræklingurinn sé kominn á diskinn eftir rúmt ár. Ræktunarstöðin sem fyrirhugað er að byggja verður í leiðinni rannsóknarstöð sem gefur mikla möguleika á kynbótum og ýmis konar tækniþróun í skelfiskræktun og mun leiða til betri vöru og styttri ræktunartíma. Ferlið er hugsað þannig að lirfan dafnar og þroskast í þrjá mánuði í ræktunarstöð á landi við bestu skilyrði. Henni er svo komið fyrir á ræktunarreipum sem hún festir sig við, þeim komið fyrir í sjónum og þar stækkar skelin og verður að endanlegri vöru rúmu ári síðar. Bláskelin þarf ekki tilbúið fóður því hún nærist á náttúrulegu þörungasvifi í sjónum,“ segir Júlíus. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Færa krækling á diskinn

Júlíus er ekki að finna upp hjólið en kynbætur og tækniþróun verða hans viðbætur. „Bláskel hefur verið ræktuð með ýmsum hætti úti í sjó í aldir í V-Evrópu. Þetta hefur verið reynt hér á Íslandi, fyrsta tilraun til bláskeljaræktunar hér á landi var gerð í kringum 1985. Þá kom í ljós að íslenskar aðstæður henta að mörgu leyti vel en um leið sá vandi að æðarkollan sótti í ræktunarreipin og át af þeim. Þess vegna þarf að koma ræktunarreipunum á meira dýpi, en þó ekki niður á sjávarbotninn því þar eru krossfiskar sem finnst bláskel lostæti. Það að rækta lirfur fyrir bláskel er tiltölulega nýtt. Ég veit um eina svona stöð í Kanada, sem hyggst rækta bláskeljalirfur en lirfuræktun fyrir aðrar tegundir, t.d. ostrur hefur tíðkast um nokkurn tíma. Kynbætur á skeldýrum í eldi  byrjuðu fyrir u.þ.b. tíu árum og tækniþróunin á því sviði hefur  verið mjög ör að undanförnu. Ég hef kynnt mér þær vel og ætla að nýta  þá þekkingu í mínu verkefni. Áhersla verður lögð á ræktun lirfanna og selja þeim sem rækta bláskel til manneldis út í sjó. Þar er allur heimurinn markaðssvæðið en mjög auðvelt og ódýrt er að flytja lirfurnar, sem eru mjög fyrirferðalitlar á þessu stigi.“

Reykjanesið mjög hentugt

Aðstæður til fiskeldis og svona starfsemi eru einkar hentugar á Reykjanesi vegna aðgengis að að eldissjó úr borholum og jarðhita.

„Ekki þarf  stórt húsnæði undir starfsemina, 500 fermetjrar munu duga til að byrja með. Sjórinn er síaður þar sem hann er tekinn upp úr borholum í hrauninu, u.þ.b. 50 metra frá fjörunni en það er mjög mikilvægt í þessari framleiðslu að nota síaðan sjó upp á varnir gegn smithættu að gera. Gert er ráð fyrir að byrja í leiguhúsnæði en áhersla verður lögð á  sjálfar kynbæturnar. Ég er í leit að lóð fyrir starfsemina og geri ráð fyrir að innan fimm ára frá því að verkefnið fer af stað, verði risin ný lirfuræktunarstöð. Í draumum mínum verður byrjað seinni partinn á næsta ári.“

Umhverfisvæn matvælaframleiðsla

Júlíus telur möguleika bláskeljaræktunar mikla, sérstaklega hér á Íslandi sökum góðra aðstæðna.

„Það hefur verið stöðnun í bláskeljarækt í Evrópu, m.a. vegna fastheldni við gamlar framleiðslu og viðskiptaaðferðir.  Eins hafa verið vandamál í Evrópu vegna mengunar en við það vandamál þurfum við Íslendingar ekki að glíma. Aðstæður eru mjög góðar í sjó hér við land vegna hafstrauma sem flytja með sér mikið magn þörunga. Segja má að áhugi minn á þessu verkefni hafi kviknað í starfi mínu fyrir ORF þar sem við unnum að tækniþróun og uppskölun á  frumuvökum fyrir þá viðskiptavini ORF sem þróa nú stofnfrumuræktun á kjöti. Í tengslum við það kynnti ég mér matvælaframleiðslu í heiminum en almenningur er að vakna til vitundar um hversu mikið við göngum á umhverfið okkar með núverandi matvælaframleiðslu. Venjuleg kjötræktun þarfnast mikils ræktunarlands og tilbúins áburðar og veldur mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Það er ekki tilviljun að við heyrum á hverju ári að regnskógar séu brenndir til að geta haldið áfram á sömu braut. Framleiðsla próteinríkra matvæla í dýraeldi þarf mjög mikið landbúnaðarland til framleiðslu fóðurs og með því er enn frekar gengið á umhverfi jarðar. Afleiðingar þessa er m.a. þær að allt að milljón tegundir lífvera eru í útrýmingarhættu til viðbótar við þær þúsundir sem nú þegar eru aldauða. Þá er kolefnisfótspor í dýraeldi almennt hátt. Skelræktin hefur hins vegar mjög lágt kolefnisfótspor, þarf ekkert fóður sem ræktað er á landi og engan tilbúinn áburð þar sem lirfurnar og bláskelin lifa af þörungunum í sjónum. Ræktun bláskelja er því einhver sú umhverfisvænasta matvælaframleiðsla (framleiðsla próteinríkara matvöru) sem fyrirfinnst. Ég hef mikla trú á þessu verkefni en vil alls ekki búa til of miklar væntingar. Sýnin er skýr á hvað þarf að gera en það eru ótal hindranir sem  þarf að yfirstíga áður en verkefnið verður að veruleika,“ sagði Júlíus að lokum.