Ræktuðu kannabis í tjaldi á heimilinu
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í gær fíkniefnasala, sem var með kannabisefni í níu sölupakkningum á sér. Við leit, sem hann hafði heimilað í húsnæði sínu, fannst kannabis út um alla íbúð ásamt kannabisfræjum. Þetta er í annað skipti á skömmum tíma sem maðurinn er handtekinn vegna fíkniefnasölu. Í fyrra skiptið runnu lögreglumenn á kannabislykt sem reyndist koma frá heimili hans. Við leit þá fundust um 100 grömm af kannabisefnum, ýmist í söluumbúðum eða stærri pokum, auk lítillar vogar.
Þá handtók lögregla nýverið þrjá einstaklinga vegna fíkniefnasölu, eftir að gerð hafði verið húsleit hjá þeim að fengnum dómsúrskurði. Innan dyra fannst talsvert af kannabisefnum og sveppir í poka. Í einu svefnherberginu var tjald sem í voru tengdir barkar með filterum. Þá fundust einnig stórir lampar. Lögregla telur að þessi útbúnaður hafi verið ætlaður til vinnslu eða ræktunar á kannabis. Húsráðandi var að auki með fíkniefni í brjóstvasa og framvísaði einnig fjórum pakkningum af kannabisfræjum. Í ofangreindum málum fundust þó nokkrir fjármunir sam lögregla haldlagði.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.