Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Rækta örþörung í 55 kílómetrum af glerpípum
Framkvæmdastjóri Algalífs á Íslandi er Skarphéðinn Orri Björnsson. VF-mynd: Hilmar Bragi
Þriðjudagur 3. júní 2014 kl. 03:10

Rækta örþörung í 55 kílómetrum af glerpípum

Líftæknifyrirtækið Algalíf mun fá fyrstu uppskeru úr örþörungaræktun sinni í júnímánuði. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að uppbyggingu verksmiðjunnar á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Algalíf nýtir nú 1.500 fermetra húsnæði sem þegar er til á Ásbrú. Þar hefur verið komið fyrir samtals um 55 kílómetrum af fimm sentimetra breiðum glerpípum þar sem þörungurinn er ræktaður í lokuðu kerfi. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan stækki enn frekar á næsta ári og gert er ráð fyrir allt að 6000 fermetra viðbyggingu við núverandi húsnæði. Áætlað er að uppbygging örþörungaverksmiðjunnar muni kosta um tvo milljarða króna og hún verði fullkláruð um mitt ár 2015.

Í verksmiðjunni verða ræktaðir örþörungar sem nefnast Haematococcus Pluvialis, en úr þeim er unnið virka efnið Astaxanthin. Það er sterkt andoxunarefni sem notað er í fæðubótarefni og vítamínblöndur, auk þess að vera neytt í hylkjaformi. Mikill og vaxandi markaður er fyrir efnið og heimsframleiðslan núna annar hvergi nærri eftirspurn.

Skilyrði eru sérstaklega hagstæð á Íslandi til hátækniframleiðslu af þessu tagi, en nálægð við alþjóðaflugvöll, hreint vatn, örugg afhending orku og hæft starfsfólk eru meðal þeirra þátta sem réðu staðarvalinu.

Verksmiðjan verður sú fullkomnasta sinnar gerðar í heiminum. Þörungarnir verða ræktaðir í lokuðu kerfi þar sem næringu, hita og birtumagni verður stýrt nákvæmlega.

Verksmiðja Algalífs mun nota 5 megavött af raforku til framleiðslunnar. Þegar hefur verið gengið frá samningi við HS Orku um raforkukaup til 25 ára.

Algalíf Iceland ehf. var stofnað í ágúst 2012 og er í eigu norska félagsins NutraQ A/S.

Áætlað er að uppbygging örþörungaverksmiðjunnar muni kosta um tvo milljarða króna og hún verði fullkláruð um mitt ár 2015.

Starfsmenn eru núna 18 en verða um 30 þegar verksmiðjan verður komin í fullan gang.


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024