Ræddi uppsögn í Landsbankanum í þingsal
- Sendi fyrirspurn til bankans um breytingar meðal æðstu stjórnenda
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, ræddi uppsögn Guðmundar Ingiberssonar hjá Landsbankanum í Reykjanesbæ í ræðu sinni á Alþingi í gær. Hann sagði framkomu yfirmanna Landsbankans ofbjóða fólki og að miskunnarleysið væri algjört.
Starfsmaðurinn er með fötlun og hafði starfað við bankaþjónustu í um 30 ár. Uppsögn hans vakti sterk viðbrögð og voru margir sem mótmæltu henni. Ásmundur sagðist hafa sent erindi til stjórnar bankans um það hvort ekki stæði til að gera breytingar meðal æðstu stjórnenda Landsbankans. „Þar sitja stjórnendur sem eru rúnir öllu trausti almennings og stór hluti starfsmannanna upplifir vanlíðan við störf sín alla daga. Virðulegur forseti, ég hélt að óttastjórn væri liðin tíð,“ sagði Ásmundur á Alþingi í gær.
Þá sagði hann siðferðisbresti í íslensku samfélagi sífellt meira áberandi og nánast áþreifanlega í daglegu lífi og vísaði til sölu Landsbankans á hluta í Borgun og á sölu Arion banka á hluta í Símanum.
Tengd frétt: Uppsögn vakti hörð viðbrögð