Ráðning Bjarkar Guðjónsdóttur í starf verkefnastjóra var ólögmæt
Innanríkisráðuneytið hefur úrskurðað að ráðning Bjarkar Guðjónsdóttur í starf verkefnastjóra hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum var ólögmæt. Úrskurður ráðuneytisins er í stjórnsýslumáli sem Friðleifur Kristjánsson höfðaði gegn Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum [SSS], en Friðleifur var einn af fimm einstaklingum sem teknir voru í starfsviðtal vegna umsóknar um starf verkefnastjóra hjá SSS.
Aðdragandi þess að ákveðið hafi verið að ráða í stöðu verkefnisstjóra hjá SSS hafi verið sá að stjórn SSS hafi vorið 2010 gert tvo samninga við íslenska ríkið. Annars vegar menningarsamning og hins vegar vaxtarsamning. Gildistími beggja samninga er eitt ár. Hvor samningur um sig hafi lagt þær kvaðir á SSS að ráðinn skyldi aðili til að sinna þeim verkefnum sem tengdust hvorum samningi fyrir sig.
Þegar samningarnir höfðu verið undirritaðir var ákveðið á fundi Atvinnuþróunarráðs SSS, sem skipað er af bæjarstjórum allra sveitarfélaga á Suðurnesjum, að auglýsa eftir starfsmanni til eins árs til að sinna þeim störfum er að samningunum lutu.
Þann 8. júlí 2010 birtist svo auglýsing um að laust til umsóknar væri starf verkefnisstjóra hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Var umsóknarfrestur auglýstur til 26. júlí sama ár. Eftir að umsóknir höfðu verið yfirfarnar var tekin um það ákvörðun, þann 9. ágúst 2010, að ráða Björk Guðjónsdóttur í starfið.
Á vef innanríkisráðuneytisins er ítarlega farið yfir málið og má lesa um það hér.
Úrskurðarorð ráðuneytisins eru að ákvörðun Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem tekin var þann 9. ágúst 2010 um ráðningu í starf verkefnisstjóra er ólögmæt.