Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 9. desember 1999 kl. 22:13

RÁÐNING BAK VIÐ TJÖLDIN

Minnihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar er ósáttur við hvernig staðið var að ráðningu umsjónarmanns íþróttamiðstöðva Heiðar- og Myllubakkaskóla og Reykjaneshallarinnar og lagði fram bókun þess efnis á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar 17.nóvember. Umsækjendur um stöðu umsjónarmanns voru fjórtán og bæjarráð kallaði fimm úr þeim hópi til viðtals en einn dró umsókn sína til baka. Meirihluti bæjarráðs lagði þá til að Guðmundur Sighvatsson yrði ráðinn umsjónarmaður en hann var ekki einn þeirra sem boðaður var í viðtal. Minnihlutinn er ósáttur við þessi vinnubrögð og segir m.a. í bókuninni að „meirihlutinn gerir ekkert með þá vinnu sem unnin hefur verið, en ákveður þess í stað að ráða einn umsækjanda sem aldrei var kallaður til viðtals. Með þetta í huga er vandséð til hvers var verið að eyða tíma umsækjenda á þennan hátt þar sem svo virðist að meirihlutinn hafi þegar verið búinn að taka ákvörðun „bak við tjöldin.“ Undir bókunina rita Jóhann Geirdal (J) og Kristmundur Ásmundsson (J). Jónína Sanders (D) lagði einnig fram bókun varðandi þetta mál og í henni kemur fram að viðtöl við umsækjendur séu aðeins einn liður af mörgum sem notaður er til að velja starfsmenn. „Unnið hefur verið í þessu máli af heilindum í alla staði og vísar meirihlutinn því á bug aðdróttunum minnihlutans sem fram koma í bókun þeirra.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024