Ráðist að lögreglumanni í Leifsstöð
Rúmlega þrítugur karlmaður réðst á lögreglumann í tollsal Leifsstöðvar í gærkvöldi og hótaði honum og nærstöddum öllu illu. Frá þessu var greint á ruv.is í gærkvöldi. Tollverðir höfðu skömmu áður stöðvað árásarmanninn sökum gruns um að hann væri með fíkniefni innvortis. Ellisif Tinna Víðisdóttir, staðgengill sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, segir að embættið líti það alvarlegum augum að ráðist sé á starfsmenn þess.
Árásarmaðurinn var færður í fangageymslur og í ljós kom að hann var ekki með fíkniefni í iðrum sínum. Maðurinn segist hafa verið ölvaður en grunur leikur á að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna. Ellisif Tinna, staðgengill sýslumanns, segir hins vegar að ekki hafi verið nokkur leið að skera úr um það í gærkvöldi vegna þess hvernig maðurinn lét. Ellisif segir að embættið njóti leiðsagnar ríkissaksóknara um næstu skref, málið sé í rannsókn en það verði ekki liðið að ráðist sé á tollverði og lögreglumenn með þessum hætti.