Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ráðist á listsýningu í annað sinn
Mánudagur 14. apríl 2008 kl. 10:42

Ráðist á listsýningu í annað sinn

„Hér vantar greinilega verulega mikið upp á þroska viðkomandi,“ varð listakonunni Sólveigu Dagmar að orði þegar hún leit á ummerki sem einhver hafði skilið eftir á sýningu hennar í Bíósal Duushúsa nú fyrir helgi.

Á sýninginni gefst gestum kostum á að tjá sig með málningu á tveimur stórum strigum innan um gamlar og nýjar ljósmyndir frá gamla varnarsvæðinu á Miðnesheiði en sýninguna nefnir Sólveig „För hersins“. Á strigana hafði verið málað „Sólveig þú ert fallin“. Á skýringaspjald sem hangir á milli striganna hafa sömu skilaboð verið skrifuð með svörtum túss og krotað yfir orð þannig að merking setninga breyttist á þann veg að gestir væru EKKI beðnir að tjá sig um veru og för hersins á strigann. Undir þetta er ritað heiti ákveðinnar vefsíðu sem við nánari skoðun er greinilega gerð út af undarlega þenkjandi fólki, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sýningin er liður í lokaverkefni Sólveigar í Hagnýtri menningarmiðlun við Hugvísindadeild Háskóla Íslands. Þetta er í annað sinn sem viðkomandi aðilar ráðast á sýninguna með þessum hætti en í fyrra skiptið gerðist það í Þjóðarbókhlöðunni í lok janúar. Þar var málað yfir strigana með málningarrúllu, eftir að 250 manns voru búnir að tjá sig á þá.

„Þetta er afskaplega óvitsmunaleg og ósmekkleg tjáning,“ segir Sólveig um þessa árás. „Það var ekki verið að biðja um þessa tjáningu heldur um veru og för hersins. En sýningin heldur áfram og verður sett upp á Akureyri í sumar. Ég er búinn að ná þessu prófi og hef ekki áhyggjur af því. Fékk átta komma fimm,“ segir hún og hlær.

Sólveig segir sömu strigana verða setta upp á Akureyri þrátt fyrir fúkyrðin, enda eru þeir hluti af sýningunni. „Ég er einmitt að skrá sögu sýningarinnar núna. Þetta er ljósmynda-gjörningasýning, ekki sögusýning þannig að sýningin er að verða að sögu.“


Á myndunum að neðan má sjá strigana sem skilaboðin voru máluð á. Þeir voru reyndar ætlaðir undir annars konar tjáningu. VF-myndir: elg.