Ráðherra var afhent yfirlýsing héraðsfréttamiðla
„Miklar breytingar hafa orðið á rekstrarumhverfi fjölmiðla undanfarin ár með þeim afleiðingum að rekstur margra héraðsfréttamiðla er kominn að þolmörkum. Má þar nefna breyttan fjölmiðlalestur yngra fólks, breytingar á auglýsingamarkaði, hærri póstburðargjöld og hækkun verðlags. Auglýsingar hafa í vaxandi mæli ratað á erlenda samfélagsmiðla og streymisveitur. Á sama tíma er hlutverk landsbyggðarmiðlanna fyrir sitt nærumhverfi óumdeilt því þeir sinna aðhaldi, upplýsingamiðlun og söguskráningu fyrir sín svæði sem aðrir fjölmiðlar ná ekki að sinna,“ segir í áskorun héraðsfréttamiðla á málþingi sem haldið var í Eyjum 7. júlí.
Málþingið var haldið í tilefni þess að Eyjafréttir fagna fimmtíu ára afmæli um þessar mundir en miðillinn hefur nú verið sameinaður fréttamiðlinum eyjar.net. Fyrir þingið höfðu fulltrúar sex landshlutamiðla samþykkt áskorun sem afhent var Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, en hún fer fyrir þessum málaflokki í Stjórnarráðinu. Í áskoruninni kemur m.a. fram að forsvarsmenn héraðsfréttamiðla vilja aukið gegnsæi og fyrirsjáanleika við úthlutun styrkja til einkarekinna fjölmiðla.
Fjárheimild til staðar
Þá er í ályktuninni vísað til þess að undanfarin ár hefur mikil umræða átt sér stað um stuðning hins opinbera við einkarekna fjölmiðla. „Frá árinu 2020 hefur verið veittur stuðningur samkvæmt ákvörðun Alþingis upp á 370–470 milljónir á ári. Sá stuðningur hefur hjálpað og í einhverjum tilfellum lengt lífdaga sumra miðla en hann hefur því miður ekki dugað til að bæta eiginfjárstöðu útgáfufyrirtækjanna. Miðað við fjárlög ársins 2024 eru 700 milljónir áætlaðar til að styðja einkarekna fjölmiðla í landinu. Hvernig er ekki nánar skilgreint í fjárlögunum. Þess vegna skorum við neðangreind, ritstjórar og útgefendur héraðsfréttamiðla, á viðskipta- og menningarmálaráðherra að veita allri þessari upphæð í árlegan rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla fyrir árið 2023. Aukinn beinn stuðningur hins opinbera er fjölmiðlum okkar lífsnauðsynlegur auk þess sem íslenska ríkið á enn langt í land með að styðja við einkarekna fjölmiðla eins og gert er á Norðurlöndunum.“ Undir ályktunina rita forsvarmenn Austurgluggans/Austurfréttar, Eyjafrétta, Eyjar.net, Skessuhorns, Vikublaðsins og Víkurfrétta.
Erum í limbói
„Nú erum við í þeirri stöðu eins og aðrir miðlar að það eru ekki nægar tekjur til að reka fyrirtækin. Fjölmiðlastyrkur hefur hjálpað til en það sem okkur finnst vanta er aukið gegnsæi og að það liggi fyrir hver styrkurinn er á hverju ári. Núna erum við í svolitlu limbói,“ sagði Ómar Garðarsson, ritstjóri Eyjafrétta og skipuleggjandi ráðstefnunnar. „Svo viljum við að það verði kafað ofan í mál héraðsfréttamiðla og leggjum til starfshóp með stjórnvöldum og vonumst til þess að hann komist á laggirnar og menn geti farið að skoða þetta í fullri alvöru,“ bætti hann við.