Ráðherra stal senunni með því að rjúka á dyr
-bjartsýni um að flýta tvöföldun ReykjanesbrautarFundur um tvöföldun Reykjanesbrautar í Eldborg í Grindavík:Árni Mathiesen, sitjandi ráðherra samgöngumála og fyrsti þingmaður Reykjaneskjördæmis stal senunni á fundi um tvöföldun Reykjanesbrautar í Eldborg í Grindavík sl. föstudag. Hann gekk út af nýbyrjuðum fundinum þegar sýna átti myndband frá VÍS þar sem ung stúlka, fórnarlamb umferðarslyss, sagði frá reynslu sinni. „Það var búið að lofa því að blanda ekki tilfinningum í þessa umræðu“, sagði ráðherrann. Fundurinn hélt áfram en Markaðs- og atvinnumálaskrifstofan sendi um kvöldið út harðorða tilkynningu vegna þessa upphlaups ráðherra.Umræðan hélt áfram þrátt fyrir uppákomuna en ráðherrann fjallaði efnislega um málið við fréttamenn áður en hann hélt á dyr. Hann sagði að þingmenn svæðisins hefðu átt viðræður við Vegagerðina um hvernig standa mætti að því að flýta framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Árni sagði að m.a. hefði verið rætt um að setja brautina í umhverfismat ásamt hönnun árið 2002 og hefja framkvæmdir 2003. Þeim gæti lokið 3-4 árum síðar ef farið yrði þá leið að bjóða verkið út í alútboði, þ.e. í einu lagi. „Það er ekki spurning hvort eða hvenær heldur hvernig þetta verður gert“, sagði Árni og benti á að búið væri að ákveða í langtímaáætlun til vegamála 2,5 milljarð króna auk þess sem fyrir lægri hálfur milljarður sem ekki hefur verið ráðstafað. Aðrir þingmenn fjölluðu um málið á fundinum. Hjálmar Árnason sagði samkeppni um fjármagnið harða en samstaða væri meðal þingmanna. Guðmundur Árni Stefánsson tók undir það. Kristján Pálsson sagði marga fara með faðirvor áður en þeir héldu á brautina. Gunnar Birgisson sagði frá möguleikanum um að semja við einn verktaka um að taka allt verkið en Árni R. Árnason sagði að ekki hafi alltaf verið samstaða um Reykjanesbrautina. „Ég er oft hrædd á Reykjanesbrautinni“, sagði Sigríður Jóhannesdóttir og Þorgerður Gunnarsdóttir sagðist vilja fá fundarefnið sem fram hafði verið sett í byrjun, fyrir samgöngunefnd þingsins. Helga Sigrún Harðardóttir, ráðgjafi hjá Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar flutti tölu og mætti með nýjar upplýsingar í tvöföldunar-umræðunni unnar á upplýsingum Sjóvá-Almennra. Hún sagði að umferð um brautina hafi fimmfaldast frá því brautin var tekin í notkun fyrir 35 árum og lækka mækki slysastuðulinn um 75% með tvöföldun. Heildargreiðslur tryggingafélaga nema 1,3 milljarði vegna slysa en sú tala myndi lækka um milljarð á tíu árum með tvöföldun auk annnars sparnaðar í heilbrigðis- og tryggingakerfinu. Algengustu slysin eru aftánkeyrsla og útafakstur en dýrustu óhöppin eru mætingar og framúrakstur. Yngstu ökumennirnir 17-20 ára valda flestum slysunum en næsti aldurshópur 21-30 ára veldur „dýrustu“ slysunum.Í fréttatilkynningu Markaðsskrifstofunnar vegna útgöngu Árna segir að þingmaðurinn hafi frekar rokið á dyr í stað þess að dveljast við og eiga þess kost að dæma um innihald fundarins eftir að mælendaskrá var opnuð. Með uppþoti ráðherra má segja að fundurinn hafi orðið að þeim „sirkusi“ sem menn voru sammála um að forðast í lengstu lög. Starfsmenn MOA harma mjög óvænt og ótímabær viðbrögð ráðherrans og telja að markmið fundarins hafi fallið í skuggann fyrir framkomu hans.