Ráðherra skipar sr. Skúla sóknarprest í Keflavík
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, skipaði í dag sr. Skúla Sigurð Ólafsson í embætti sóknarprests í Keflavíkurprestakalli þrátt fyrir áköf mótmæli meirihluta sóknarbarna.
Mikill meirihluti sóknarbarna vildu séra Sigfús B. Ingvason í embættið, en meirihluti valnefndar Keflavíkurkirkju, sem var skipaður þeim Halldór Leví Björnssyni, Önnu Jónsdóttur, Ragnheiði Ástu Magnúsdóttur, Birgi Guðnasyni og Sigurði Sigurðarsyni, vígslubiskupi, rökstuddi val sitt á séra Skúla S. Ólafssyni með því að segja að umsókn hans og framkoma á valnefndarfundi hafi borið vott um vöndun sem skaraði fram úr því sem fram hafi komið hjá öðrum umsækjendum.
Alls skrifuðu 4431 sóknarbörn í Keflavík undir áskorun til sóknarnefndar að endurskoða ákvörðun valnefndar þar sem hún endurspegli ekki vilja sóknarbarna. Voru listarnir afhentir dóms- og kirkjumálaráðherra fyrir páska, en hann varð greinilega ekki við áskoruninni.
Sr. Skúli Sigurður Ólafsson lauk embættisprófi í guðfræði árið 1996 frá HÍ og var vígður prestur við Ísafjarðarprestakall vorið1997. Hann var skipaður prestur Íslendinga í Svíþjóð með aðsetur í Gautaborg vorið 2000. Hann hefur stundað framhaldsnám við Gautaborgarháskóla og guðfræðideild Háskóla Íslands. Sr. Skúli er settur sóknarprestur á Ísafirði.