Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ráðgjafastofan: Viðbrögð mjög jákvæð - fyrirtæki auglýsa störf
Fimmtudagur 30. mars 2006 kl. 10:26

Ráðgjafastofan: Viðbrögð mjög jákvæð - fyrirtæki auglýsa störf

Ráðgjafastofa fyrir starfsmenn Varnarliðsins hefur nú tekið til starfa á Hafnargötu 29 í Reykjanesbæ og hafa viðbrögð verið mjög góð að sögn starfmanns sem Víkurfréttir ræddi við í morgun. Starfsemi Ráðgjafaþjónustunnar mun verða með ýmsu móti, t.d. miðlun upplýsinga, margvísleg ráðgjöf, aðstoð og námskeiðahald. Þá er stofan nú þegar í góðu samstarfi við mörg fyrirtæki sem vilja ráða til sín fólk.

Ráðgjafastofan opnaði á mánudaginn og að sögn starfsmanns hafa viðbrögðin verið afar jákvæð, t.d. hafa ýmis fyrirtæki sett sig í samband við stofuna til að auglýsa laus störf. Er nú þegar verið að auglýsa eftir fólki í skrifstofustörf, afgreiðslustörf og tæknimönnum, svo eitthvað sem nefnt, en hægt er að fylgjast með því á vef Reykjanesbæjar hvaða störf eru auglýst hverju sinni. Þær upplýsingar verða uppfærðar reglulega en á vefnum er sérstakur tengill á Ráðgjafastofuna. Einnig verður að finna þar upplýsingar um það hvað er á döfinni, t.d. um námskeiðin. Að sjálfsögðu er fólk velkomið að kíkja við á skrifstofunni í kaffisopa og spjall.

Fyrsta námskeiðið verður haldið næsta miðvikudag á vegum IMG. Fjallað verður um áfallið sem fylgir því að missa vinnuna, ráðningarferlið, gerð kynningarbréfs og ferilskrár. Þá er fjallað um hvernig best er að undirbúa sig undir atvinnuviðtal. Aðeins eru 10 manns á hverju námskeiði sem tryggir persónulegri ráðgjöf og vinnu út frá því. Þátttakendur geta skráð sig hjá Ráðgjafarstofun starfsmanna Varnarliðsins í síma 421-1222. Rétt er að taka fram að námskeiðið er starfsmönnum að kostnaðarlausu.

Mynd:  Hér á Hafnargötu 29 er Ráðgjafastofan til húsa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024