Ráðgjafastofan: Mikill áhugi á námskeiðum
Sú þjónusta sem Ráðgjafastofa starfmanna Varnarliðis hóf að veita nýverið hefur mælst mjög vel fyrir á meðal vallarstarfsmanna og atvinnurekenda og eru fjölmörg laus störf auglýst á vefsíðu stofunnar. Þá er mikill áhugi á þeim námskeiðum sem í boði eru og er orðið fullbókað á sum þeirra. Nokkrum námskeiðum hefur verið bætt við vegna þessa.
Venný Sigurðardóttir, starfsmaður Ráðgjafastofunnar, segir að fyrirtækjunum hafi verið sent bréf í síðustu viku og hafa þau sýnt mjög góð viðbrögð, bæði á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu.
Aðspurð segir Venný að fólk sé ágætlega bjartsýnt, þó gæti minni bjartsýni hjá því starfsfólki sem er á aldrinum 50 - 60 ára.
Á námskeiðinu, sem er í samstarfi við MSS og IMG er m.a. farið yfir gerð færnimöppu og kortlagningu reynslu og áhugasviða, fjallað um áfallið sem fylgir því að missa vinnuna, ráðningarferlið, gerð kynningarbréfs og ferilskrár og fjallað um hvernig er best að undirbúa sig undir atvinnuviðtal. Námskeiðin eru hugsuð sem einn pakki þannig að þátttakendur fái fyrst góðan undirbúning við gerð færnimöppu sem skilar sér í betri ferilskrá.
Námskeiðin verða í boði svo lengi sem eftirspurn verður til staðar. Einnig kemur vel til greina að bjóða upp á annars konar námskeið, ef áhugi verður fyrir hendi og er verið að skoða það.
Heimasíðu Ráðgjafastofunnar má finna á vef Reykjanesbæjar, www.rnb.is
Mynd: Ráðgjafastofan er til húsa á Hafnargötu 29, 2. hæð.