Raðbrennuvargur á ferð?
Tvö brunaútköll bárust lögreglunni á Suðurnesjum í gærkvöldi. Um hálf níu var tilkynnt um eld í gömlu fiskmjölsbræðslunni í Sandgerði. Er lögregla kom á vettvang reyndist loga eldur í fiskikari. Slökkvilið Sandgerðis slökkti eldinn og urðu ekki teljandi skemmdir.
Tveimur tímum síðar var tilkynnt um eld í bifreið við Hrannargötu 5 í Reykjanesbæ. Logaði í gamalli bifreið sem þar stóð án skráningarnúmera. Brunavarnir Suðurnesja komu á vettvang og slökktu eldinn. Nokkuð hefur borið á því undanfarið að kveikt hafi verið í gömlum óskráðum bifreiðum.
Mynd: Þessi bíll varð brennuvargi að bráð fyrir síðustu helgi en ítrekað hefur verið borinn eldur að númerslausum bílum upp á síðkastið.