Ráða þarf bót á skorti lækna og hjúkrunarfræðinga hjá HSS

- Hlutfall læknisviðtala á heilsugæslustöðvum á dagvinnutíma á Suðurnesjum var það lægsta á landinu árið 2015

Læknir sem rætt var við í útttekt á vegum Embætti landlæknis fullyrti að álagið á læknum heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja væri meira en á bráðamóttöku LSH þar sem hann starfaði áður en hann hóf störf við HSS. Embætti landlæknis kemur með ábendingar eftir úttektina og segir m.a. að skýra þurfi hlutverk heilsugæslu HSS, stefnumörkun sé ekki skýr, ráða þurfi bót á mönnun lækna og hjúkrunarfræðinga sem og sérfræðinga í geðteymi og meðferðarteymi barna.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem út kom í apríl 2017 er bent á að ekki sé hægt að leggja vaktþjónustu lækna eða hjúkrunarfræðinga að jöfnu við aðgengi að föstum heilsugæslu- eða heimilislækni eða heilsugæsluteymi sem veitir heildræna þjónustu. Embætti landlæknis tekur undir þetta sjónarmið. Í úttekt Ríkisendurskoðunar kemur jafnframt fram að hlutfall læknisviðtala á heilsugæslustöðvum á dagvinnutíma á Suðurnesjum er það lægsta á landinu árið 2015. Ljóst er að kostnaður við yfirvinnu er hærri en við dagvinnu og því er fjárhagslegur ávinningur fyrir stofnunina að sem mest afköst náist í dagvinnu, auk þess sem hagsmunum notenda þjónustunnar er betur mætt.

Á heilsugæslunni er mjög skilvirk hjúkrunarmóttaka alla virka daga frá kl. 08:00–16:00 en bið eftir þjónustu getur verið 1-2 dagar. Einnig er símaráðgjöf á vegum hjúkrunarmóttökunnar á hverjum virkum degi kl. 08–12 sem er mikið notuð, geta verið allt að 30 símtöl á dag og læknir er ávallt tiltækur ef þarf.

Síðdegismóttaka heilsugæslunnar í Keflavík er opin alla virka daga frá kl. 16:00 – 20:00 og um helgar og á helgidögum frá kl.10:00–13:00 og 17:00–19:00. Mjög margir nýta sér síðdegismóttökuna, 70-90 manns að jafnaði á dag. Eftir kl. 20:00 tekur bráðamóttakan við en hún er opin allan sólarhringinn. Það er ljóst að mjög mikið álag er á heilsugæslunni og bráðamóttökunni og voru komur á bráðamóttökuna yfir 16 þús. árið 2016 sem er svipaður fjöldi og kemur á bráðamóttökuna á Akureyri. Í skýrslunni kemur fram að mönnun hjúkrunarfræðinga á heilsugæslunni sé ófullnægjandi. Það vanti hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökuna. Framkvæmdastjórn HSS hefur óskað eftir auknu fjármagni til að bæta mönnun hjúkrunarfræðinga þannig að mönnun á slysa- og bráðamóttöku verði sólarhringsmönnun alla daga. Læknir sem rætt var við fullyrti að álagið á læknum HSS væri meira en á bráðamóttöku LSH þar sem hann starfaði áður en hann hóf störf við HSS. Einnig var nefnt að lítið mætti út af bera vegna mönnunar lækna, þarf ekki annað en að einn veikist þá skapast mikil vandræði.

Mat embættis landlæknis er að hluta af vanda heilsugæslu HSS megi rekja til skorts á stefnumörkun og ósýnileika framkvæmdastjórnar. Ekki sé skráð með sýnilegum hætti hver stefna heilsugæslunnar er, hvaða árangri heilsugæslan hyggst ná, né hvernig árangur er gerður sýnilegur sjúklingum og starfsfólki. Hvorki sé um heildræna gæðastefnu né kerfisbundið umbótastarf að ræða á heilsugæslu HSS. Embætti landlæknis kemur með ábendingar eftir úttektina og segir m.a. að skýra þurfi hlutverk heilsugæslu HSS, ráða þurfi bót á mönnun lækna og hjúkrunarfræðinga sem og sérfræðinga í geðteymi og meðferðarteymi barna.