Brons
Brons

Fréttir

Prófanir á neyðarhitaveitu í Rockville í undirbúningi
Gas og gufa stígur upp af gossprungunni og hrauninu á Sundhnúkagígaröðinni. Augu samfélagsins eru á svæðinu og í raun beðið eftir næsta atburði og hvaða afleiðingar hann getur haft. VF/Hilmar Bragi
Föstudagur 7. febrúar 2025 kl. 06:48

Prófanir á neyðarhitaveitu í Rockville í undirbúningi

Setja upp tvo gufukatla á Fitjum. Ætlað að koma í veg fyrir neyðarástand ef heitt vatn hættir að berast frá Svartsengi vegna náttúruhamfara.

Eins og greint var frá í Víkurfréttum í síðustu viku hefur verið sett upp neyðarhitaveita í Rockville á Miðnesheiði og til stendur að setja upp búnað vegna neyðarhitaveitu á Fitjum. Vatni sem verður veitt frá þessum búnaði er ætlað að halda veitukerfum á þjónustusvæðinu frostfríum. Um er að ræða samstarfsverkefni stjórnvalda, HS Orku og HS Veitna með aðstoð ÍSOR, borfyrirtækja og annarra verktaka.

Á vef HS Veitna segir að fyrsti hluti verkefnisins sé nú langt kominn sem felst í því að nýta lághita sem fannst í Rockville sem hluta af neyðarhitaveitu fyrir Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Voga. Með því er gert ráð fyrir að mögulegt verði að halda veitukerfum frostfríum. Mun það gagnast ef á reynir þar sem tankveitan svokallaða sem gripið var til í heitavatnsleysi í febrúar á síðasta ári skilaði því að minni skemmdir urðu á lagnakerfi þar sem tókst að halda velgju á lögnum og hitaveitunni komið í jafnvægi fyrr en ella.

Vegna efnasamsetningar jarðhitavökvans í Rockville er ekki mögulegt að tengja hann beint inn á hitaveituna og því þarf að nýta varmann til forhitunar á köldu vatni sem síðan er dælt inn á veitukerfi HS Veitna.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Heitavatnspípa tengir innviði

Til þess þurfti að koma upp tæknilega flóknum búnaði við borholuna og hefur hönnun, smíði og kaup á þeim búnaði staðið yfir síðustu mánuði. Hafa HS Veitur lagt heitavatnspípu sem tengir umrædda innviði við stofnæð hitaveitu og eru prófanir nú í undirbúningi. Að því loknu verður gengið frá búnaðinum þannig að hann verði tiltækur ef á þarf að halda. Afkastageta neyðarkyndistöðvarinnar í Rockville verður um 50 l/s af 85°C heitu vatni.

Til að auka afköst neyðarhitaveitunnar verður í næsta fasa unnið að því að koma upp samskonar neyðarkyndistöð á Fitjum í Reykjanesbæ.

Þar sem engin lághitahola er á Fitjum er gert ráð fyrir tveimur gufukötlum sem geti skilað álíka miklu magni, um 50 l/s af 85°C heitu vatni. Er sá búnaður á leið til landsins og í undirbúningi að útbúa undirstöður fyrir búnaðinn. Í framhaldi er ætlunin, með áframhaldandi stuðningi stjórnvalda að skoða hvort einni neyðarkyndistöð af sömu stærð verði bætt við.

Búnaður neyðarhitaveiunnar í Rockville. VF/Hilmar Bragi

Kemur í veg fyrir neyðarástand

Samtals afkastageta neyðarhitaveitunnar gæti þá orðið um 150 l/s af 85°C heitu vatni ef farið verður alla leið í uppsetningu búnaðar. Til samanburðar hefur heitavatnsnotkun í Reykjanesbæ, Suðurnesja­bæ og vogum numið 450 l/s að jafnaði yfir árið en álagið er mismunandi eftir árstíðum og meira að vetri til.

Neyðarhitaveitunni er ætlað að koma í veg fyrir neyðarástand ef heitt vatn hættir að berast frá Svartsengi vegna náttúruhamfara.

Magninu af heitu vatni er ætlað að duga til að draga úr líkum á frostskemmdum fasteigna á svæðinu en óvíst er hverju hún mun skila til upphitunar húsa enda fer það mikið eftir útihitastigi við slíkar aðstæður.  Með því að halda húsum frostfríum getur neyðarhitaveitan í það minnsta auðveldað íbúum að ná upp lágmarkshita í húsum með rafkyndingu ef á reynir.

Þetta verkefni er það fyrsta sinnar tegundar hér á landi og því um þróunarverkefni að ræða. Endanleg virkni neyðarhitaveitunnar er því ekki alveg fyrirsjáanleg, segir í tilkynningu frá HS Veitum.