Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Primo í samstarf við lögreglu og bæjaryfirvöld
Fimmtudagur 17. janúar 2008 kl. 21:56

Primo í samstarf við lögreglu og bæjaryfirvöld

Veitingastaðurinn Primó í Reykjanesbæ skrifaði í dag undir samkomulag líkt og aðrir veitinga- og skemmtistaðir í bæjarfélaginu hafa gert um nýjar leiðir í vörnum gegn ofbeldi og fíkniefnanotkun í bæjarfélaginu.

Í samkomulaginu sem gert var í júní á síðsta ári felst að aðilar hafa komið sér saman um aðgerðir sem eiga að koma í veg fyrir að ofbeldi sé beitt eða fíkniefni notuð á skemmtistöðum í Reykjanesbæ.

Meðal helstu aðgerða er styttri opnunartími eða til 05:00 en einnig skuldbynda veitingamenn sig til þess að tryggja að 1-2 dyraverðir á viðkomandi stöðum sæki námskeiðið: Ábyrgð, öllum í hag sem snýr að grundvallaratriðum í dyravörslu. Veitingamenn tryggja jafnframt að alltaf séu til staðar dyraverðir af báðum kynjum til að gera eftirlit á skemmtistöðunum virkara. Dyraverðir bera jafnframt gul einkennisvesti og hafa beint talstöðvarsamband við lögregluna en lögreglan stefnir að því að vera mætt á staðinn innan 3 mínútna frá útkalli.
Valdi einstaklingur ítrekað ónæði eða gerist brotlegur á skemmtistað sem kallar á afskipti lögreglu missir hann við það aðgang að öðrum skemmtistöðum í bæjarfélaginu
Í tengslum við samninginn kom Reykjanesbær í samvinnu við lögreglu upp öryggismyndavélum í miðbænum til eftirlits í nágrenni skemmtistaða við Hafnargötu.

Að sögn Skúla Jónssonar aðstoðaryfirlögregluþjónst  hjá Lögreglunni á Suðurnesjum hefur verkefnið reynst vel þótt ekki sé komin löng reynsla á það. Sérstaklega hafa öryggismyndavélar skilað góðum árangri og segir Skúli að lögreglan hafi þannig komið í veg fyrir margar líkamsárásir með því að fylgjast með hópamyndun en þá hafa þeir getað sent lögreglumenn á þá staði sem þörf er á. Einnig hafa myndavélarnar verið notaðar til þess að leysa nokkur líkamsárásarmál.
"Við munum svo fara yfir þetta verkefni í júní þegar ár er liðið frá því var formlega sett af stað en þetta getur bara orðið betra enda lykilatriði að menn tali saman."

Ný öryggismyndavél bætist við fjórar aðrar sem nú eru á Hafnargötunni í næstu viku og verður hún staðsett á þaki Flughótels. þannig nær Lögreglan að vakta Hafnargötuna frá Ungó og að Primo.

Mynd: Undir samninginn rituðu Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn Lögreglunnar á Suðurnesjum, Árni Sigfússon bæjarstjóri, Rakel Ársælsdóttir og Elín Sif Kristjánsdóttir fh. Primo en þær eru eigendur ásamt Gunnari Adam Ingvarssyni og Pálma Þór Erlingssyni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024