Póstkassi í Vogum sprengdur í loft upp
Póstkassi við heimili í Vogum á Vatnsleysuströnd var sprengdur í loft upp í gærkvöldi og voru málmleifar úr kassanum á víð og dreif um húsið. Hafði öflugri púðurkerlingu úr flugeld verið hent inn í póstkassann og hann sprengdur. Lögreglan í Keflavík var kvödd á staðinn og í dagbók lögreglunnar kemur fram að lögreglan hallist að því að börn og unglingar hafi verið þarna að verki. Í dagbókinni kemur einnig fram að nokkuð virðist hafa borið á því að börn og unglingar hafi verið að rífa í sundur stóra flugelda og skottertur til að ná úr þeim öflugum púðurkerlingum. „Reyndar eru þetta oft á tíðum það öflugar púðurkerlingar að réttara er að tala um sprengjur frekar en púðurkerlingar,“ segir í dagbók lögreglunnar.