Pönnukökur flugu út í flugstöðinni
easyJet, eitt stærsta flugfélag Evrópu, hóf í dag beint áætlunarflug frá Íslandi til borgarinnar Bristol í Englandi. Þetta er fjórða flugleið easyJet frá Íslandi en félagið flýgur þegar í beinu flugi frá Keflavík til London, Manchester og Edinborgar.
Til að fagna þessari nýjustu flugleið Íslendinga bauð Isavia flugfarþegum sem voru að koma frá eða voru á leið til Bristol, Manchester og London með easyJet upp á íslenska jólakræsingar: Nýbakaðar pönnukökur, randalínur, jólasmákökur, mandarínur, malt og appelsín og heitt kakó. Alls voru það um 900 manns sem fengu að kynnast íslenskri jólastemningu og hlýða á ljúfa tóna íslenskra jólalaga.
Flogið verður til Bristol tvisvar í viku allt árið um kring, á fimmtudögum og sunnudögum. Farmiðar allt fram í miðjan september 2014 eru komnir í sölu á heimasíðu félagsins, www.easyJet.com en ódýrasta fargjaldið er 6.240 kr. með sköttum.
Keflavík - Bristol er fyrsta heilsársflugleiðin frá Íslandi sem hleypt er af stokkunum í desembermánuði. Algengast er að flugfélög kjósi að fara af stað með nýjar flugleiðir á háannatíma, s.s. í byrjun sumars en easyJet hefur mikla trú á möguleikum Íslands sem áfangastaðar allt árið.
Flugframboð easyJet hefur margfaldast
easyJet hefur aukið umsvif sín jafnt og þétt frá því að félagið hóf fyrst flug hingað til lands frá London í mars 2012. Framboð félagsins hefur margfaldast á þessum tæpu tveimur árum - úr 72 flugum á ársgrundvelli þegar flugið hófst í 832 á næsta ári (16 brottfarir á viku) en næsta vor bætist við fimmti áfangastaðurinn sem flogið verður til allt árið; Basel í Sviss.
Bristol þykir með fallegri borgum Englands og eru íbúarnir um 440 þúsund. Andrúmsloftið er sagt líflegt en afslappað og afþreying næg. Fjölda safna og verðlaunaðra veitingastaða er að finna í borginni auk verslana af öllu tagi. Í Bristol Shopping Quarter, í hjarta borgarinnar, eru nokkur hundruð verslanir, þ. á m. Harvey Nichols og ein stærsta Primark-búð landsins. Þeir sem vilja lyfta sér upp eftir langan dag hafa úr mörgu að velja en í Bristol er fjöldi kráa, tónleikastaða, skemmtistaða og næturklúbba.
Stutt er í borgirnar Cardiff í Wales (50 mín), Southampton og Oxford. Því er skammt fyrir ferðalanga að sækja menningu, kíkja í stærri fataverslanir eða fara á fótboltaleiki. Miðaldabærinn Bath er svo í 15 mínútna fjarlægð en þangað hafa margir Íslendingar lagt leið sína í gegnum tíðina. Þá eru aðeins um 100 km til London.
VF-myndir: Hilmar Bragi