Pólverji ræktaði kannabis á 3. hæð í blokk og með verðmætt þýfi
Pólskur karlmaður um þrítugt hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því á þriðjudag í síðustu viku að beiðni lögreglunnar á Suðurnesjum. Maðurinn var handtekinn og grunaður um ræktun á kannabisplöntum.
Við húsleitir fundust 200 plöntur á ýmsum stigum ræktunnar. Plönturnar voru haldlagðar í tveimur stöðum í Reykjanesbæ. Annar staðurinn var íbúð á þriðju hæð í fjölbýli.
Við húsleitir fannst einnig ætlað þýfi og að sögn Gunnars Schram hjá lögreglunni á Suðurnesjum er verðmæti þess talsvert eða á aðra milljón króna. Meðal annars fannst mikið af dýrum iðnaðarverkfærum. Lögreglan lýsir nú eftir eigendum verkfæranna.
Maðurinn er einnig grunaður um skjalafals en hann hafði persónuskilríki á tveimur mismunandi nöfnum.
Gæsluvarðhaldið yfir manninum mun renna út á morgun. Ekki var vitað nú áðan hvort farið yrði fram á framlengingu. Að sögn lögreglu er þetta ekki í fyrsta sinn sem höfð eru afskipti af þessum einstaklingi.
Við rannsókn málsins kom lögreglan upp um ræktun kannabisplantna í þriðju íbúðinni í Reykjanesbæ. Sú ræktun er óviðkomandi þessum aðila.
Myndin tengist ekki efni fréttarinnar beint.