Pólsk áhrif í útgerð á Suðurnesjum
Þá er maður nýlentur á Sandgerðisflugvelli eftir smá ferð til Póllands. Þó svo Pólland sé land nokkuð langt í burtu þá er tenging Póllands við Suðurnesin nokkuð mikil og þá aðallega vegna þess hversu mörgum bátum héðan hefur verið breytt eða þá smíðaðir nýir sem hafa þá verið í eigu útgerða á Suðurnesjum.
Besta dæmið um þetta er endurnýjun bátaflota Vísis ehf. í Grindavík. Nýi Sighvatur GK var endursmíðaður í Póllandi, nýi Páll Jónsson GK er smíðaður þar frá grunni og Fjölnir GK var einnig endursmíðaður í Póllandi.
Stærsta skipið sem hefur verið smíðað í Póllandi er togarinn Ólafur Jónsson GK sem Miðnes HF í Sandgerði átti og gerði út. Ólafur Jónsson GK kom til Sandgerðis árið 1977 og var gerður út til ársins 2001 eða í 24 ár. Reyndar tóku Miðnesingar sig til árið 1995 og stórbreyttu togaranum með því að lengja hann um tæpa 8 metra og breyta honum meðal annars í frystitogara. Þær framkvæmdir fóru fram í Póllandi. Nóg um Pólland í bili. Kannski kemur meira um Pólland í einhverjum áframhaldandi pistlum.
Ætla að renna yfir landaðan afla í höfnunum á Suðurnesjum núna í nóvember.
Í Grindavík var landað alls 2.577 tonnum. Rétt er að hafa í huga að í þessum tölum er afli frá tveimur frystitogurum, alls 1968 tonn. Þetta þýðir að bátafiskur var alls 609 tonn. Þessum afla var landað í 45 löndunum og ef einungis er horft á bátafiskinn þá er hann í 42 löndunum. Þeir sem lönduðu þar voru meðal annars: Þórdís GK 2 tn í 5 á færum. Gnúpur GK 1038 tn í 2 og Hrafn Sveinbjarnarson GK 929 tn í 1. Vörður EA 130 tonn í 3. Og síðan línubátarnir: Katrín GK 5,4 tn í 2. Daðey GK 23,6 tn í 5, Andey GK 19,5 tn í 6. Sighvatur GK 93 tn í 1. Kristín GK 100 tn í 1, Páll Jónsson GK 106 tn í 1. Grímsnes GK var á netum og landaði 24 tn í 2 róðrum.
Í Sandgerði var mjög mikið um að vera og þar var landað alls 789 tonnum í 204 róðrum og var því Sandgerði stærsta löndunarhöfnin á Suðurnesjum í nóvember og með meiri landaðan bátaafla en í Grindavík. Þar voru meðal annars Hulda GK 98 tn í 20, Dúddi Gísla GK með 18,3 tn í 3, Sævík GK 28 tn í 4. Guðbjörg GK 18 tn í 2, Andey GK 19 tn í 8, Daðey GK 52 tn í 18. Katrín GK 33 tn í 8. Benni SU 42 tn í 11. Addi Afi GK 43 tn í 10, Guðrún Petrína GK 28 tn í 6, Bergur Vigfús GK 38,6 tn í 12, Máni II ÁR 55 tn í 14 og Birta Dís GK 25 tn í 7, allir á línu.
Erling KE var með 26 tn í 5, Sunna Líf GK 13,6 tn í 11 og Valþór GK 25 tn í 11, allir á netum.
Veiðin hjá dragnótabátunum var þokkaleg. Siggi Bjarna GK með 57 tn í 11, Benni Sæm GK 73 tn í 12 og Sigurfari GK 51 tn í 11. Færabátarnir voru fáir. Steini GK var þó með 2,2 tn í 5 róðrum.
Í Keflavík var nú ekki landað miklu. Einungis 214 tonn í 47 róðrum. Og í þeirri tölu eru 9 tonn sem Hákon EA kom með til Helguvíkur af síldarhrati. Sóley Sigurjóns GK var með 122 tonn í einni löndun í Keflavík. Maron GK 18,2 tn í 15 og Erling KE 8,5 tn í 1 í Njarðvík, báðir á netum.
Sem sé það var nokkuð mikið líf, alla vega í Grindavík og Sandgerði núna í nóvember þótt að landanir hafi verið langmestar í Sandgerði.