Pissaði í landganginum
Það er ekki bara í höfuðborginni, sem menn eru kærðir fyrir að kasta af sér vatni, en það gerðist í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gærkvöld að flugfarþegi, sem var að koma til landsins, varð brátt í brók og kastaði af sér vatni um leið og hann var kominn frá borði í landgangnum. Lögreglan var kölluð til og verður farþeginn kærður fyrir uppátækið.
Lögreglan á Suðurnesjum leitar að krökkum sem hafa stundað það undanfarna daga og kvöld að sprengja skotelda í Grindavík. Mikið hefur verið hringt á lögreglustöðina frá íbúum í Grindavík, sem hafa orðið varir við mikla hvelli undanfarna daga og kvöld.
Beinir lögreglan því til foreldra í Grindavík að kanna hjá sínum börnum hvort þau hafi einhverja vitneskju um hverjir hér eru á ferð og láti lögregluna vita, en talin er mikil hætta stafa af þessum skoteldum, sem eru mjög háværir.
Loftmynd/Oddgeir Karlsson