Píratar vilja að niðurstöður íbúakosningar verði bindandi
- Vilja einnig fá að vita hvernig niðurstaðan verði ráðgefandi
Stjórn félags Pírata í Reykjanesbæ hefur á facebook-síðu sinni birt opið bréf til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ. Meðal þess sem kemur fram í bréfinu er að Píratar fagni íbúakosningu 24. nóvember til 4. desember næstkomandi um deiliskipulag á lóð Thorsil i Helguvík en að þeim hefði þótt vænna ef bæjarstjórnendur hefðu valið að gera niðurstöður kosningarinnar bindandi. „Sem er augljóslega markmið ákvæðis sveitarstjórnarlaga um íbúakosningar,“ segir í bréfinu.
Bréfið í heild sinni á lesa hér fyrir neðan:
Opið bréf til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ
Píratar lýsa ánægju sinni með að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ skuli standa fyrir íbúakosningu 24. nóvember til 4. desember næstkomandi. Einnig þykir okkur ágætt að valið sé að halda kosningarnar rafrænar og taka þannig þátt í framþróun beins lýðræðis á Íslandi. Okkur hefði þótt enn vænna ef bæjarstjórnendur hefði valið að gera niðurstöður kosningarinnar bindandi, sem sem er augljóslega markmið ákvæðis sveitarstjórnarlaga um íbúakosningar. En það felast þó einnig nokkur tækifæri í því að standa fyrir ráðgefandi íbúakosningu.
Íbúakosningar í samræmi við sveitarstjórnalög eru mikilvægur hlekkur í beinu lýðræði. Kosningin verður sú fyrsta hér á landi að frumkvæði íbúa frá því núverandi sveitarstjórnalög voru samþykkt árið 2011. Það má því segja að stjórn Reykjanesbæjar hafi mjög gott tækifæri til að gefa leiðandi fordæmi um meðferð niðurstaðna ráðgefandi íbúakosninga. Við vonum svo sannarlega að vel takist til og að þessi kosning verði bæjarfélaginu til sóma.
Píratar í Reykjanesbæ skora á bæjarstjórn Reykjanesbæjar að útskýra ítarlega fyrir bæjarbúum hvernig fyrirhugað er að meðhöndla niðurstöður þessara íbúakosninga og á hvaða hátt niðurstaðan verður ráðgefandi fyrir framhald málsmeðferðar hjá sveitarfélaginu um deiliskipulagið í Helguvík. Slík upplýsing er mikilvæg forsenda þess að kjósendur sjái sér hag í að kynnast málavöxtu og að kosningaþátttaka verði með mesta móti, óháð því hver niðurstaða atkvæða verður.
M.b.k.
Stjórn félags Pírata í Reykjanesbæ