Piltar beruðu bossann framan í vegfarendur
Lögreglunni á Suðurnesjum barst um nýliðna helgi tilkynning um að hópur unglingspilta væri uppi á þaki skólabyggingar í umdæminu og væru þeir að „múna,“ þ.e. reka nakinn afturendann framan í vegfarendur. Þegar lögregla kom á staðinn höfðu piltarnir, allir nema einn, hlaupið í burtu. Sá sem eftir var viðurkenndi að hafa verið uppi á þakinu en kannaðist ekki við að hafa verið að „múna“ á fólk á förnum vegi. Lögreglumenn gerðu honum grein fyrir því að umrædd hegðun væri ekki í lagi og lofaði hann bót og betrun.