Persónukjör rætt í bæjarstjórn Garðs
	N-listinn í Garði lagði á síðasta fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Garðs fram tillögu um að persónukjör verði viðhaft í Sveitarfélaginu Garði í kosningum til sveitarstjórnar vorið 2014. Stofnuð verði þriggja manna nefnd til undirbúnings og að sótt verði um að Garður verði tilraunasveitarfélag varðandi þessa leið í næstu kosningum.
	
	„Með þessu móti yrði Sveitarfélagið Garður fremst í flokki sveitarfélaga sem eru að velta fyrir sér persónukjöri,“ segir í tillögunni
	
	Eftir umræður um tillöguna lagði forseti bæjarstjórnar, Einar Jón Pálsson, fram eftirfarandi: Þar sem lögum um kosningar til sveitarstjórna hefur ekki verið breytt, með ákvæðum um persónukjör, lagði forseti til að afgreiðslu málsins verði frestað. Samþykkt með 5 atkvæðum en fulltrúar N lista greiddu atkvæði á móti.


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				