Perlað af krafti í Hörpu
Sunnudaginn 4. febrúar nk. hvetur Kraftur landsmenn alla til að mæta í Hörpuna milli 13 og 17 og perla armbönd til styrktar félaginu. Kraftur stefnir á Íslandsmet í fjölda manns við armbandagerð.
Síðustu vikur hefur Kraftur, stuðningsfélag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, staðið fyrir árveknis- og fjáröflunarátaki og er perluviðburðurinn lokahnykkur átaksins- Krabbamein kemur öllum við- Lífið er núna. Armböndin sem verða perluð eru seld á viðburðinum en mörg armbönd eru nú þegar seld.
Ester Amíra Ægisdóttir, 11 ára, mun láta hárið fjúka á viðburðinum til styrktar krabbameinssjúkum, en báðar ömmur hennar hafa greinst með krabbamein og ákvað hún að láta klippa hárið sitt til hárkollugerða fyrir krabbameinssjúka og safna áheitum til styrktar Krafti.
Upphaflegt markmið hennar var að safna yfir 100.000 krónum en hún er komin vel yfir þá upphæð.
Til að halda uppi stemningu og stuði á meðan á armbandagerðinni stendur munu frábærir listamenn stíga á stokk þ.e. Valdimar, Amabadama, Úlfur Úlfur og DJ Sóley.
Aðgangur er ókeypis og verða bílastæði einnig ókeypis við Hörpu á meðan á viðburðinum stendur, allir hjartanlega velkomnir.