Peningum stolið úr Innileikjagarðinum
Lögreglunni á Suðurnesjum var í vikunni tilkynnt um peningaþjófnað úr Innileikjagarðinum að Ásbrú í Reykjanesbæ. Þar hafði verið brotist inn og tíu þúsund krónum stolið úr peningakassa, þar sem gjald fyrir útleigu á húsinu er geymt. Fyrir viku hafði svipað átt sér stað, en þá var fimm þúsund krónum stolið úr kassanum. Í millitíðinni hafði verið skipt um lykil að húsinu, en það virtist ekki hafa dugað til.
Þá var lögreglu tilkynnt um innbrot í bifreið. Spennt hafði verið upp hliðarhurð á henni og úr henni stolið sex eða sjö paintball grímum og sex kössum af paintball kúlum.
Loks var tilkynnt um innbrot í húsnæði Íslenskra aðalverktaka í Höfnum. Þaðan var meðal annars stolið einhverju magni af lyfjum.
Málin eru öll til rannsóknar hjá lögreglu.