Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Pattstaða í Helguvíkurhöfn setur hömlur á atvinnulífið
Þriðjudagur 5. júlí 2016 kl. 06:00

Pattstaða í Helguvíkurhöfn setur hömlur á atvinnulífið

Hafnarstjóri Reykjaneshafnar segir að verði ekkert að gert til uppbyggingar í Helguvíkurhöfn þá muni það hamla atvinnulífi og uppbyggingu á svæðinu. Umferð er stöðugt að aukast við höfnina í takt við aukin umsvif í Helguvík. Hafnarstjóri segir að það fé sem leggja þurfti til vegna hafnarinnar sé ekki mikið sé horft til þeirra tekna sem munu hljótast af starfseminni þar á næstu árum.

Skip sem var að koma með efni til vinnslu hjá United silicon í vikunni þurfti að bíða í 12 klukkustundir eftir því að fá afgreiðslu við höfnina í Helguvík. Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri segir að þetta hafi ekki gerst áður í Helguvík og að þetta stafi af aukinni umferð við höfnina í tengslum við aukna atvinnustarfsemi þar. Það mun bara bætast við umferðina að sögn Halldórs. Bæðu muni koma meira hráefni til Helguvíkur og svo fara að streyma þaðan afurðir innan skamms, sem kallar á frekari skipakomu. „Mín sýn er sú að við verðum að hafa okkur alla við að haga þessu þannig að hlutirnir gangi upp,“ segir Halldór.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í byrjun árs 2015 óskaði Reykjaneshöfn eftir að hafnarframkvæmdir í Helguvík kæmust inn á samgönguáætlun 2015 til 2018 eftir að ný hafnalög höfðu tekið gildi. 
Halldór segir að sú stækkun sem fyrirhuguð var á viðleguköntum í Helguvík sé grunn forsenda fyrir því að geta tekið við því sem er að gerast á næstu tveimur árum. Áætlaður kostnaður vegna stækkunarinnar er tæplega 1,2 milljarðar. Halldór telur að að þær fjárhæðir sem þurfi til Helguvíkur séu ekki miklar sé horft til þeirra tekna sem munu hljótast af starfseminni þar á næstu árum. „Ef ég horfi til tíu ára þá tel ég líklegt að tekjustreymið sem yrði við þessa stækkun yrði í kringum þrjá milljarða.“ Halldór segir að það byggist þó á því að allar hugmyndir um uppbyggingu í Helguvík verði að ganga eftir.

Ef Helguvíkurhöfn kæmist inn á samgönguáætlun þá yrði framkvæmdin ríkisstyrkt að 60 prósentum líkt og í öðrum höfnum landsins. „Það eru þá eftir um 500 milljónir sem Reykjanesbær þyrfti að dekka og ef allt gengur upp sem við erum að hugsa, þá er það eitthvað sem við gætum hugsanlega séð fram úr.“ Þingmenn og ráðherrar úr Suðurkjördæmi áttu á dögunum fund með forystumönnum Reykjanesbæjar þar sem farið var yfir þær framkvæmdir sem þegar hafa átt sér stað og hvað vanti upp á í höfninni svo hún sé í stakk búin að sinna þeim inn- og útflutningi sem verður um höfnina þegar tvö kísilver hafa risið í Helguvík. „Það er fullur skilningur á þessu og mikill áhugi á að viðmót verði ekki lakara gagnvart okkur, en það hefur ekki sýnt sig á blaði ennþá,“ segir hafnarstjórinn. „Ég sá í Víkurfréttum á dögunum að fyrirhugaður væri fundur. Ég hef reyndar ekki verið boðaður á hann ennþá og veit ekki til þess að nokkur annar hafi verið boðaður á hann.“

Halldór segir að ef þessar stækkanir muni ekki eiga sér stað þá setji það miklar hömlur á atvinnuuppbyggingu á svæðinu. „Miðað við þá fjárfestingu sem liggur í þeirri uppbyggingu þá eru þetta bara smápeningar. Benda má á að í þjóðhagsspá síðastliðið haust var uppbygging kísilvera í Helguvík forsenda fyrir bættum þjóðarhag i framtíðinni.“

Íbúar Reykjanesbæjar tóku líklega eftir því að malarskip landaði við Keflavíkurhöfn á dögunum. Það skip hefði átt að landa við höfnina við Helguvík ef umferð þar hefði ekki verið svo þung. „Við bara verðum að ná þessari uppbyggingu við hafnaraðstöðuna því annars sé ég ekki hvernig við eigum að geta þjónustað þá aðila sem eru að hasla sér völl á þessu svæði. Auk þess að ef að uppbyggingin á flugvallarsvæðinu verður eins og virðist stefna í þá þýðir það að allt það sem þarf að flytja inn vegna þeirrar starfsemi, þarf að fara í gegnum aðrar hafnir en okkar hafnir og slíkt myndi auk þess hafa í för með sér talsvert aukna umferð á Reykjanesbraut,“ segir hafnarstjórinn að endingu.