Páskaganga um umhverfi Bláa Lónsins
Þann 2. apríl nk. eða á annan í páskum verður boðið upp á gönguferð með leiðsögn um stórbrotið umhverfi Bláa Lónsins. Gangan er í boði Grindavíkurbæjar og Bláa Lónsins og er enginn þátttökukostnaður í hana. Gangan hefst kl. 11.00 við bílastæði Bláa Lónsins og er áætlað að hún taki um þrjár klukkustundir, hægt er að fara rúmlega hálfan hring og fá akstur til baka.
Gengið verður m.a. um mosagróið Illahraun, framhjá Rauðhól (gígnum sem hraunið kom úr á sögulegum tíma), farið með Skipsstíg, fornri þjóðleið, haldið austur með norðurhlíðum Þorbjarnarfells og inn á Baðsvelli. Þar er ætlunin m.a. að kíkja á þjófaslóðir og hin gömlu sel Grindvíkinga. Þá verður gengið um hið litskrúðuga lónssvæði að lækningalindinni og endað í heilsulind.
Góður skófatnaður er æskilegur og gott er að taka með sér smá nesti. Allir þátttakendur eru á eigin ábyrgð, Sigrún Franklín verður leiðsögumaður göngunnar.