Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Partýstand og útsýni yfir garða og sólpalla
Þriðjudagur 26. júní 2018 kl. 10:15

Partýstand og útsýni yfir garða og sólpalla

- segir í athugasemdum íbúa vegna grenndarkynningar á Sjávargötu 6

Skipasmíðastöð Njarðvíkur óskaði í vor eftir heimild til að bæta við hæð ofan á spilhús við Sjávargötu 6 í Njarðvík. Hæðin yrði notuð sem gistirými fyrir starfsmenn skipasmíðastöðvarinnar, segir í umsókn skipasmíðastöðvarinnar sem lögð var fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar í vor. Þar var umsóknin samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda.
 
Athugasemdatíminn er liðinn og bárust athugasemdir frá ellefu einstaklingum í fimm liðum. Samandregnar eru athugasemdir eftirfarandi:
 
Hljóðvist og partýstand. Partýstand og annað getur orðið daglegt brauð.
- Skipulagsyfirvöld taka ekki afstöðu til fullyrðinga um mögulega áfengisneyslu íbúa bæjarfélagsins á eigin heimili.
 
Innsýn í garða. Íbúar munu hafa útsýni yfir garða og sólpalla, sem dregur úr áhuga á að nýta lóðir.
- Mörg íbúðarhús í nágrenninu eru tvær hæðir svo búast má almennt við innsýn í garða frá næsta nágrenni.
 
Verbúðir og ógn við fjölskyldulíf og börn sérstaklega. Á reitinn verða mögulega komnir um 200 einstaklingar. Börn hverfisins geta líklega ekki leikið frjálst í nærumhverfi sínu.
- Íbúar Reykjanesbæjar hafa allir jafnan aðgang að opnum svæðum bæjarins.
 
Skert útsýni. Þriggja hæða bygging skerðir útsýni á Reykjanesfjallgarðinn.
- Útsýni skerðist mögulega að einhverju leyti.
 
Umferðarmál og bílastæði. Umferð um hverfið hefur aukist svo að hverfið er við þolmörk. Ekki er gert ráð fyrirbílastæðum.
- Réttmæt ábending varðandi bílastæði og aðkomu. Breyta þarf tengingu Sjávargötu við Klapparstíg og Tunguveg svo umferð tengd Njarðvíkurhöfn villist ekki inn í hverfið. Sýna þarf fram á nægan fjölda bílastæða og aðkomu að þeim á uppdrætti.
 
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur frestað afgreiðslu málsins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024