Pappírslaus Orlik ekkert á förum
- Umhverfisstofnun stöðvaði brottför
Umhverfisstofnun stöðvaði brottför torgarans Orlik frá Njarðvíkurhöfn í lok síðustu viku. Danskur dráttarbátur var kominn til landsins og allt átti að vera klárt til að draga skipið úr höfn og til áfangastaðar í Evrópu þar sem rífa á skipið í brotajárn. Þá kom upp úr kafinu að samþykki Umhverfisstofnunar þarf að liggja fyrir þegar skip stærri en 300 brúttótonn eru dregin yfir hafið. Þá þarf að liggja fyrir skriflegt samþykki frá móttökulandi skipsins og frá þeim löndum sem yrðu viðkomustaðir á leiðinni á áfangastað.
Það getur tekið einhverjar vikur að útvega þau leyfi og samþykki sem þarf og á meðan hvílir togarinn áfram við bryggju í Njarðvíkurhöfn. Togarinn fór á dögunum í flotkví í Hafnarfirði þar sem botn hans var skoðaður. Eitthvað fór úrskeiðis í þeirri skoðun því þegar skipið var sjósett að nýju tók sjór að flæða inn í það. Talsverður sjór var kominn í skipið þegar menn veittu því athygli að það væri að sökkva við bryggju í Njarðvík. Köfunarþjónusta Sigurðar dældi sjónum úr skipinu og þétti svæðið sem lak.
Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, segir í samtali við Víkurfréttir að hafnaryfirvöld leggi ríka áherslu á að sumarið sé nýtt til að koma skipinu í burtu. „Það er uggur í okkur og við hugsum með hryllingi til þess að skipið verði hér annan vetur,“ sagði Halldór Karl við blaðið. Hann sagði að þrýst verði á að skipið fari en það geti tekið mánuð að afla þeirra gagna sem þarf til að flutningurinn yfir hafið verði heimilaður. Á meðan mun togarinn verða fyrir augum fólks en Orlik er engin bæjarprýði eins og fram hefur komið.